„Menn komist ekki upp með svona“

Exeter-húsið áður en það var rifið.
Exeter-húsið áður en það var rifið.

Ekki hefur verið ákveðið hvenær hafist verður handa við endurreisn Exeter-hússins við Tryggvagötu, en viðræður Reykjavíkurborgar við Mannverk og Minjastofnun Íslands  eru að hefjast. Reykjavíkurborg kærði Mannverk skömmu eftir að í ljós kom að fyrirtækið hafði rifið húsið, sem var friðað. Minjastofnun hefur ekki enn lagt fram sína kæru.  

„Það er ekki í þágu neins að það verði auðn á þessum stað næstu misserin eða árin en það breytir engu um að kæra borgarinnar stendur. Þetta er lögreglumál,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. „Aðalatriðið hjá borginni er að menn komist ekki upp með svona og endurbyggingin á þessu húsi verði eins vönduð og mögulegt er.“

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Rax

Fyrsta kæran af þessu tagi 

Að sögn Hjálmars var kæran lögð fram tveimur dögum eftir að í ljós kom að húsið hafði verið rifið. „Eftir að verktakinn hafði komið með ákveðnar útskýringar á þessum verknaði taldi borgin enga spurning um að leggja fram kæru,“ segir hann og tekur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem borgin kærir lóðahafa eða verktaka fyrir sambærilegan verknað. „Þetta er um það bil það róttækasta skrefið sem borgin getur tekið í bili.“

Hann segir mikilvægt að Mannverk endurreisi húsið eftir mjög nákvæmri leiðsögn Minjastofnunar. „Í mínum huga er engin spurning um að það eigi að byggja það upp sem bindingsverkshús, sem er byggingaraðferð 19. aldarinnar þar sem burðarbitarnir læsa sig hver í annan.“

Reiturinn þar sem húsið stóð.
Reiturinn þar sem húsið stóð. mbl.is/Styrmir Kári


Mannverk greiði hverja einustu krónu

Aðspurður segir hann að Mannverk muni borga allan kostnaðinn við endurreisn Exeter-hússins. „Verktakinn mun greiða hvern einasta aur. Það er ófrávíkjanleg krafa. Eflaust verður þetta dýrara en þeir ætluðu sér,“ segir hann en bætir við að borgin hafi ekki sett fram formlega kröfu þess efnis.

Ekki hægt að stytta sér leið

Hjálmar segir að framkvæmdir muni hefjast um leið og  strangir skilmálar hafa verið uppfylltir og að algjörlega öruggt sé að þeim verði framfylgt. „Ég vona að það gangi hratt og örugglega fyrir sig að setja slíka skilmála. Það er mjög mikilvægt að verktakar og fjárfestar sem eru að vinna hérna í borginni viti að það er ekki hægt að stytta sér leið. Ef það er gert verður það viðkomandi afar dýrkeypt. Það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á því.“

Svona á götumyndin að líta út eftir að húsið hefur …
Svona á götumyndin að líta út eftir að húsið hefur verið endurreist. Mynd/Aðsend

Kæran verður lögð fram

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, segir að til standi að kæra Mannverk. Hún tekur fram að Reykjavíkurborg starfi öðruvísi en Minjastofnun og því taki lengri tíma fyrir stofnunina að leggja fram sína kæru. „Kæran verður lögð fram. Þrátt fyrir það ætlum við að reyna að vinna saman í að leysa þetta mál á sem farsælastan hátt,“ segir hún.

Mannverk sendi í síðasta mánuði frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla þar sem Minjastofnun, byggingaryfirvöld og almenningur var beðinn afsökunar á skorti á aðgát þegar það ákvað að rífa húsið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert