Umfang tjónsins liggur ekki fyrir

Alþýðuhúsið við Skipagötu í morgun
Alþýðuhúsið við Skipagötu í morgun mbl.is/Skapti

Ljóst er að tjón vegna mikils magns af heitu vatni sem lak um hæðir Alþýðuhússins við Skipagötu 14 á Akureyri í nótt og í morgun er gríðarlegt. Búið er að koma mörgum blásurum fyrir í húsinu og er unnið að því að þurrka og þrífa húsnæðið en ekki verður hægt að meta umfang tjónsins strax.

Mestar skemmdir urðu á þriðju og fjórðu hæð hússins en talið er að hátt í tólf tonn af vatni hafi lekið um húsið. 

Tilkynnt var um lekann þegar klukkan var sautján mínútur gengin í átta í morgun. Nýleg slanga fór af krana við uppþvottavél í veislusal á fjórðu hæð hússins og flæddi það smá saman niður hæðirnar.

Frétt mbl.is: Allt á floti í Alþýðuhúsinu

Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og í nágrenni, segir skemmdirnar vera mestar á fjórðu hæðinni en félagið FVSA er staðsett á þriðju hæðinni.

„Svo fer þetta auðvitað að leka hérna niður. Eins og staðan er núna hjá okkur þá eru skemmdir á lofti, á innréttingum og hugsanlega á veggjum og parketi. Svo er það raskið sem fylgir þessu en núna er verið að blása og þurrka,“ segir hann og bætir við að tíminn muni leiða í ljós hversu umfangsmiklar skemmdirnar eru. Fjögur félög deila rýminu á hæðinni en það er FVSA, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri og Félag málmtæknimanna.

Skrifstofurnar voru lokaðar í morgun en nú er búið að opna þær aftur. „Menn eru bara að blása, þurrka og þrífa. Við erum búin að koma okkur þannig fyrir að við getum sinnt okkar félagsmönnum hérna á hæðinni,“ segir Eiður. Koma á blásurum fyrir í hverju rými á hæðinni. 

„Aðstaða starfsfólk er ekki góð í augnablikinu. Það er rakalykt og hávaði af blásurunum. Svo á væntanlega eftir að rífa, laga og breyta. Sem betur fer hélt þetta nokkuð vel þarna uppi, inni í ákveðnum rýmum voru orðnir nokkuð stórir pollar. Loftið er nokkuð vatnshelt á köflum,“ segir Eiður.

Samkomusalur Lions á fjórðu hæð Alþýðuhússins var á floti í …
Samkomusalur Lions á fjórðu hæð Alþýðuhússins var á floti í morgun. Skapti Hallgrímsson
Skrifstofa Vinnueftirlitsins á þriðju hæð í morgun. Þar var alt …
Skrifstofa Vinnueftirlitsins á þriðju hæð í morgun. Þar var alt á floti. Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert