Fjórir í framboði til formanns

Allir þeir sem voru skráðir félagar í Samfylkingunni kl. 12 …
Allir þeir sem voru skráðir félagar í Samfylkingunni kl. 12 í dag geta kosið nýjan formann í rafrænni kosningu. mynd/Heiðdís

Framboðsfrestur fyrir formannskjör Samfylkingarinnar rann út í hádeginu í dag. Fjórir verða í framboði, þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný G. Harðardóttir. Kosningin fer fram rafrænt og hefst 28. maí. Henni lýkur á landsfundi flokksins 3. júní.

Í samtali við mbl.is staðfesti Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, að þessi fjögur hafi skilað inn gögnum um framboð áður en fresturinn rann út. Hún segir að stefnt sé að því að niðurstöður kosningarinnar liggi fyrir kl. 18 föstudaginn 3. júní þegar landsfundur flokksins stendur yfir.

Allir þeir sem voru skráðir félagsmenn í Samfylkingunni kl. 12 í dag hafa atkvæðisrétt í kosningunni sem verður rafræn.

Einnig verður kosið til varaformanns flokksins og í framkvæmdastjórn en framboðsfrestur til þeirra embætta rennur út á landsfundinum sjálfum. Aðeins kjörnir landsfundarfulltrúar hafa atkvæðisrétt í kosningum til þeirra embætta.

Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingarinnar, lýsti því yfir í gær að hann drægi framboð sitt til áframhaldandi setu í embættinu til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert