Árni Páll óákveðinn með framhaldið

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist ekki hafa ákveðið hvort hann bjóði sig fram til Alþingis í næstu þingkosningum. Stutt er síðan hann ákvað að hætta við að sækjast eftir endurkjöri til formanns Samfylkingarinnar.

„Ég sit áfram sem alþingismaður og svo metur maður stöðuna þegar maður kemur að kosningum, eins og maður gerir alltaf. Þingmennska er í mínum huga samstarfsverkefni á milli þingmanns og kjósenda. Það þarf að vera ákveðið samhengi á milli framboðs og eftirspurnar,“ segir Árni Páll.

Frétt mbl.is: Árni Páll hættur við framboð

Ekki skynsamleg skilaboð

Hann segir ekkert eitt hafa valdið því að hann ákvað að hætta við formannsframboðið, aðeins viku eftir að hann hélt blaðamannafund þar sem hann tilkynnti um framboðið. „Ég sannfærðist um það á þessari viku að ég gæti unnið þetta en efaðist stórlega um að ég næði nauðsynlegum vinnufrið til að halda áfram, jafnvel þótt það tækist,“ greinir Árni Páll frá.

„Svo sá ég líka þá mynd teiknast upp að þetta voru fimm kandídatar að berjast um formennsku í flokki sem er í erfiðri stöðu og mér fannst það ekkert endilega skynsamleg skilaboð til þjóðarinnar og það ýtti enn frekar á mig.“

Hann vill ekkert tjá sig um hvern hann vill sjá sem næsta formann Samfylkingarinnar. „Ég ætla að hlífa eftirmanni mínum við því að sitjandi formaður Samfylkingarinnar hafi afskipti af því. Ég held að það sé ekki góð latína.“

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson. mbl.is/Golli

Veikara Alþingi í stjórnartíð Davíðs

Davíð Oddsson, sem hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands, lét hafa eftir sér að þingið væri afskaplega veikt og þar séu fáir sem veiti vigt eða forystu. Meiri reynslu skorti.

Árni Páll er ekki sammála því að þingið sé veikt og telur að það hafi verið mun veikara í stjórnartíð Davíðs. „Þá var gengið yfir þingið. Stjórnarmenn voru eins og viljalaust verkfæri í höndum flokksforystu á þeim tíma. Hann hafði ekki einu sinni fyrir því að uppfylla lagaskyldur um samráð við Alþingi varðandi stuðning við innrásina í Írak, svo dæmi sé tekið,“ segir hann.

Þvert á móti telur hann að vegur þingsins hafi aukist frá hruni.  „Fjöldi þingmannamála sem hafa verið samþykkt hefur fjölgað og á margan hátt hefur margt gengið vel í þinginu. Hins vegar hafa stjórnmálin verið föst í miklu átakafari og það sér ekki fyrir endann á því. Framboð hans [Davíðs] mun alveg örugglega ekki hjálpa til við að losa íslensk stjórnmál og íslenska stjórnmálaumræðu úr því fari,“ bætir Árni Páll við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert