Stjórnvöld liðsinni við Mývatn

Mývatn.
Mývatn.

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, telur að stjórnvöld verði að koma til móts við Skútustaðahrepp til að bæta úr frárennslismálum sveitarfélagsins. Úrelt skólpkerfi er talið einn af nokkrum áhrifaþáttum í þeirri hnignun lífríkis Mývatns sem verið hefur til umræðu að undanförnu.

Nefndin fundaði í dag um mengun við Mývatn. Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, fulltrúar frá Skútustaðahreppi og fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar voru gestir fundarins. 

Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti Skútustaðahrepps, sagði í samtali við Morgunblaðið um helgina, að sveitarstjórnin hefði mætt litlum skilningi alþingismanna og stjórnvalda þegar hún hefur óskað eftir fjárhagsstuðningi til úrbóta á frárennslismálum.

Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, sagði í samtali við Morgunblaðið í apríl í fyrra, að kostnaður sveitarfélagsins við að uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu gæti numið um fjórðungi árstekna sveitarfélagsins. Hann sagði ennfremur, að það væri eðlilegt að íslenska ríkið kæmi að kostnaði af ítarlegri hreinsun skólps í sveitarfélaginu.

Skútustaðahreppur getur ekki ráðist í nauðsynlegar aðgerðir

Höskuldur segir í samtali við mbl.is, með reglugerðarbreytingu árið 2012 hafi verið settar meiri kvaðir á sveitarfélögin varðandi frárennsli og hreinsun á því. „Lítið sveitarfélag eins og Skútustaðahreppur hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að fara í þær aðgerðir sem þar er lagt upp með.“  

Höskuldur segir ennfremur, að Skútustaðahreppur sé ennfremur bundinn af lögum um vernd Mývatns og Laxár. „Þannig að þeir eru í mjög sérstakri stöðu, og þannig stöðu að ég held að það verði að skoða það mjög alvarlega að stjórnvöld komi að með einhverjum hætti.“ 

Lagt til að samráðshópur verði skipaður

Nefndin tók málið upp að eigin frumkvæði og vildi kalla eftir upplýsingum að sögn Höskuldar. „Við munum væntanlega leggja til að það verði skipaður samráðshópur sem fari mjög gaumgæfilega ofan í þetta og þar verði kallaðir allir til, sveitarfélagið, stjórnvöld, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun og ferðaþjónustan.“

Höskuldur segir að lífríki Mývatns sé mjög dýnamískt og hluti af risastóru vatnakerfi sem nái alla leið til Bárðarbungu. Hann segir að lífríkið geti breyst mjög hratt á skömmum tíma. Annars vegar sé að ræða skammtímaáhrif og hins vegar langtímaáhrif. „Vandamálið í dag er að bæði þessi langtíma- og skammtímaáhrif eru í hámarki á sama tíma,“ segir Höskuldur. 

Hvað varði umræðu um flúormengun á svæðinu segir hann að hún sé fyrst og fremst af náttúrulegum orsökum.  Lítill hluti sé af mannavöldum, t.d. vegna landbúnaðar og ferðaþjónustu. „Það er ekki þar með sagt að við eigum ekki að taka það alvarlega. Við eigum að taka það mjög alvarlega,“ segir Höskuldur.

Spurður út í framhaldið, þá segir Höskuldur að nefndin muni taka frá tíma til að ræða málið áfram. Fleiri gestir verði ekki kallaðir á fund nefndarinnar, nema eftir því verið kallað sérstaklega. 

Vilja að brugðist sé við alvarlegu ástandi í lífríki Laxár og Mývatns

Árni Einarsson líffræðingur, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, sagði einnig í samtali við Morgunblaðið um sl. helgi, að hann finndi fyrir miklum vilja til að vinna að úrbótum á bágu ástandi Mývatns, jafnt meðal sveitarstjórnarmanna sem stofnana hjá ríkinu sem hafa með málefnið að gera. En kostnaður stæði vissulega í mönnum.

Kveikjan að umræðunum um ástand Mývatns var ályktun Veiðifélags Laxár og Krákár um mánaðamótin, þar sem skorað var á yfirvöld umhverfismála, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi, að bregðast við því alvarlega ástandi sem við lýði væri í lífríki Laxár og Mývatns í Suður-Þingeyjarsýslu. „Lífríki Mývatns og Laxár hefur verið undir miklu álagi undanfarna áratugi og svæðið er á rauðum lista Umhverfisstofnunar fjórða árið í röð. Kúluskíturinn, sem aðeins finnst á einum öðrum stað í heiminum, er horfinn og botni Mývatns má líkja við uppblásinn eyðisand. Bleikjan hefur verið nánast friðuð í nokkur ár til að koma í veg fyrir útrýmingu. Hornsílastofninn er í sögulegri lægð,“ sagði í ályktuninni.

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert