Heiður að fá viðhafnarkvöldverð

Lilja ásamt utanríkisráðherrum Bandaríkjanna og Norðurlandanna
Lilja ásamt utanríkisráðherrum Bandaríkjanna og Norðurlandanna Mynd/Utanríkisráðuneytið

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, áttu í dag hálftíma fund saman. Lilja segir í samtali við mbl.is að einblínt hafi verið á öryggis- og varnarmál og með hvaða hætti Norðurlöndin geti komið að slíkum málum. Segir hún fundinn hafa verið mjög góðan og uppbyggilegan. Funduðu þau í tilefni af leiðtogafundi Bandaríkjanna og Norðurlandanna sem fram fór í morgun.

Lilja segir að ekki hafi verið farið í málefni einstakra ríkja nema framlög þeirra til varnar og öryggismála. Hafi hún lagt áherslu á að Ísland væri að auka útgjöld til þessara mála auk flóttamannamála, en staða þeirra var einnig hluti af umræðuefni fundarins.

Frétt mbl.is: Góðar móttökur í Hvíta húsinu

Sagði hún að Kerry hafi sagt sér að hann væri ánægður með þátttöku Norðurlandanna í tengslum við flóttamannavandann í Evrópu. Þá hafi þau rætt almennt um stöðu mála í Sýrlandi og Írak.

John Kerry og Lilja Alfreðsdóttir.
John Kerry og Lilja Alfreðsdóttir.

Aðeins tólfti viðhafnarkvöldverður Obama

Dagskrá Lilju hefur verið ströng í dag, en dagurinn byrjaði á leiðtogafundinum þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, stýrði íslensku sendinefndinni. Í kjölfarið var hádegismatur og svo fundur með Kerry. Þegar mbl.is náði tali af Lilju var hún að undirbúa för á viðhafnarkvöldverð (e. State dinner) sem haldinn er í Hvíta húsinu vegna leiðtogafundarins.

Bendir hún á að þetta sé aðeins tólfti slíki viðhafnarkvöldverðurinn sem Obama haldi á átta ára ferli sínum sem forseti. „Okkur er sýndur mikill heiður með þessu og mjög gaman að fá að taka þátt,“ segir Lilja. Segir hún þetta sýna fram á traust samstarf Bandaríkjanna og Norðurlandanna og að gagnkvæmur vilji sé til að halda því samstarfi áfram.

Frá fundarhöldum í dag.
Frá fundarhöldum í dag. Mynd/Utanríkisráðuneytið

Íslenskir ráðamenn tvívegis áður í slíku boði

Ráðamenn Íslands hafa tvisvar áður tekið þátt í viðhafnarkvöldverði í Hvíta húsinu, en það var 24. ágúst árið 1944 þegar Sveinn Björnsson var í heimsókn hjá forsetanum Franklin D. Roosevelt. Fimm árum síðar, eða 4. apríl árið 1949 heimsóttu Bjarni Benediktsson og Thor Thors forsetann Harry S. Truman.

Lilja tekur fram að ekki verði horft fram hjá því að þegar Norðurlöndin standi svona sameinuð myndi þau sterka heild í alþjóðastjórnmálum þótt hvert og eitt ríki sé ekkert sérlega fjölmennt.

Móttökur fyrir íslensku sendinefndina í Washington.
Móttökur fyrir íslensku sendinefndina í Washington.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert