Íslensk prinsessa í ómerktri gröf

Friðrika Björnsdóttir.
Friðrika Björnsdóttir. Skjáskot/CBC News

Friðrika Björnsdóttir hvílir í ómerktri gröf á einmanalegri hæð skammt frá Manitoba í Kanada. Þegar hún lést, tveimur vikum eftir að áttunda barn hennar kom í heiminn, var kirkjugarðurinn lokaður og því var Friðrika jarðsett á akri nálægt heimili fjölskyldunnar. Hún er sögð vera barnabarn Friðriks VI. Danakonungs.

Kvikmyndaframleiðandinn Angela Chalmers vinnur að heimildarmynd um ferð Friðriku og fjölskyldu hennar til Kanada. Þá vinnur hópur fólks að því að safna peningum svo hægt verði að fegra gröf Friðriku. 

Friðrik sjötti vildi eignast son svo hann gæti erft konungsríkið. Eiginkona hans eignaðist aftur á móti hverja stúlkuna á fætur annarri og brá hann þá á það ráð að leita utan hjónabandsins. Hélt hann fram hjá konu sinni með íslenskri konu og eignuðust þau drenginn Samúel, segir Chalmers.

Samúel var alinn upp í Danmörku og fór uppruni hans ekki hátt. Hann erfði ekki krúnuna og hélt að lokum til Íslands þar sem hann eignaðist dótturina Lovísu með eiginkonu sinni. Lovísa eignast síðar stúlkuna Friðriku, langafabarn Friðriks sjötta.  

Friðrika hitti eiginmann sinn á dönskum fiskibáti. Þau eignuðust börn og fluttu til Vesturheims árið 1876 ásamt mörg þúsund Íslendingum. Börn Friðriku og eiginmanns hennar létust öll þrjú úr bólusótt en síðar eignuðust þau fimm börn til viðbótar. Tveimur vikum eftir að Friðrika fæddi áttunda barn sitt lést hún og var grafin á akrinum.

Hér má lesa um áætlun hópsins vegna grafar Friðriku

Umfjöllun CBC News

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka