Krefst skýringa frá FME

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað formlega eftir því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis boði fulltrúa Fjármálaeftirlitsins á fund nefndarinnar. Hann krefst meðal annars skýringa á því af hverju eftirlitið hafi ekki brugðist við fregnum af ítrekuðum samkeppnisbrotum Valitors sem voru framin í forstjóratíð Hösk­uld­ar H. Ólafs­son­ar, nú­ver­andi banka­stjóra Ari­on banka.

Í umræðum á Alþingi í dag talaði Þorsteinn um tregðu Fjármálaeftirlitsins til þess að taka á tveimur málum sem hann telur undir það heyra. Annars vegar sölu Landsbankans á hlut í Borgun og hins vegar samkeppnisbrotum Valitors.

Þor­steinn sagði á þingi í gær að fram kæmi í 2. mgr. 52. gr. laga um fjár­mála­fyr­ir­tæki að stjórnar­menn eða fram­kvæmda­stjór­ar mættu ekki í tengsl­um við at­vinnu­rekst­ur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyr­ir refsi­verðan verknað sam­kvæmt til að mynda al­menn­um hegn­ing­ar­lög­um og sam­keppn­is­lög­um.

„En svo vill ein­mitt til að í ein­um viðskipta­banka þjóðar­inn­ar sit­ur fram­kvæmda­stjóri en á hans tíma í öðru starfi 2008, 2013 og 2014 var lögð á það fyr­ir­tæki stjórn­valds­sekt fyr­ir að brjóta sam­keppn­is­lög ít­rekað. Stjórn­valds­sekt­irn­ar nema á ann­an millj­arð króna,“ sagði Þor­steinn.

„Nú hlýt­ur maður að spyrja, vegna þess að viðskipta­bank­inn sem um ræðir ku vera í sölu­ferli, hvort sölu­verð bank­ans gæti hugs­an­lega orðið fyr­ir tjóni af þess­ari staðreynd og hvort Fjár­mála­eft­ir­litið ætli virki­lega ekki að láta í sér heyra,“ bætti hann við.

Hann sagðist á þingi í dag ekki hafa fengið nein sérstök viðbrögð frá eftirlitinu. Þess vegna hefði hann óskað eftir því við formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að boða fulltrúa FME á fund nefndarinnar til þess að þeim gefist kostur á að útskýra hvers vegna eftirlitið hafi ekki tekið afstöðu í þessum málum.

Frétt mbl.is: FME láti í sér heyra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert