Flúði undan Boko Haram til Íslands

Eze Henry Okafor var fluttur með lögreglufylgd úr landi í …
Eze Henry Okafor var fluttur með lögreglufylgd úr landi í gær. Honum hefur verið gert að yfirgefa Svíþjóð í byrjun júnímánaðar. mbl.is/Þorsteinn

Eze Henry Okafor, flóttamaðurinn sem vísað var úr landi í gær, á að yfirgefa Svíþjóð, þar sem hann er nú staddur, fyrir 1. júní nk. Telja sænsk stjórnvöld sig ekki hafa neina skyldu til að taka upp mál að því er kemur fram í yfirlýsingu samtakanna No Borders Iceland. Segir þar að í ljós hafi komið það sem samtökin hafa haldið fram, að brottvísun Okafor til Svíþjóðar jafngildi brottvísun hans til Nígeríu.

Frétt mbl.is: Handteknar í Icelandair-vél

„Svo virðist sem íslensk stjórnvöld hafi ekki gengið úr skugga um það hvort sænsk stjórnvöld myndu veita honum leyfi til að dvelja í Svíþjóð. Þar með er verið að þvinga hann til að snúa aftur til Nígeríu án þess að skoða hver afdrif hans verða þar,“ segir í yfirlýsingunni. Íslensk stjórnvöld eru sökuð um að brjóta gegn flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að ekki megi vísa hælisleitenda aftur til lands þar sem hann telur líf sitt eða heilsu í hættu né til svæðis þar sem ljóst er að hann verði fluttur á slíkt svæði.

Frétt mbl.is: Gekk ekki gegn úrskurði kærunefndar

Okafor sótti um hæli á Íslandi fyrir fjórum árum og var hann fluttur í lögreglufylgd úr landi í gær. Samtökin No Borders stóðu fyrir mótmælum í vél Icelandair og hvöttu aðra flugfarþega til að standa upp og mótmæla brottvísuninni. Tvær konur voru handteknar vegna mótmælanna.

Faðir Okafor myrtur af hryðjuverkasamtökunum Boko Haram

Hjalti Hrafn Hafþórsson hjá No Borders segir Okafor hafa komið hingað til lands fyrir fjórum árum á flótta undan hryðjuverkasamtökunum Boko Haram.

Eze Okafor.
Eze Okafor. mbl.is

„Faðir hans var myrtur af Boko Haram. Feðgunum var eiginlega skipað að fara í vinnu fyrir samtökin. Þeir neituðu, faðir hans var myrtur og Eze var stunginn í höfuðið. Hann er með mjög sýnilegt ör á höfðinu eftir það og árásin olli honum miklum sársauka þar sem hann fékk lengi ekki almennilega læknishjálp við því,” segir Hjalti og bætir við að skv. tölum Human Rights Watch hafi fjöldi fólks á flótta undan Boko Haram í Nígeríu tvöfaldast á einu ári og er nú talið að um tvær milljónir manna hafi flúið heimili sín vegna samtakanna.

Á Íslandi í fjögur ár og sjálfum sér nógur

Spurður hvað No Borders sé að aðhafast vegna máls Okafors segir Hjalti nú unnið að því að bjarga honum um stuðning í Svíþjóð svo hann sé ekki á götunni. „En svo er okkar krafa að hann sé tekinn heim. Hann hefur búið sér til heimili hér og við höfum allar forsendur til að veita honum skjól fyrir þessum hryðjuverkasamtökum. Hann hefur verið sjálfum sér nógur, búinn að vinna og leigja sér sitt eigið húsnæði,“ segir Hjalti og bætir við að hann kosti íslenskt samfélag ekkert.

Hjalti segir að Okafor hafi búið hérlendis í fjögur ár á meðan mál hans velktist í kerfinu. „Hælisumsókn hans var aldrei tekin fyrir heldur hefur verið rembst við að koma honum úr landi,“ segir Hjalti. Neitað var að fresta brottvísun hans á meðan umsóknin væri í ferli og gagnrýnir Hjalti harðlega hörkuna hjá Útlendingastofnun í garð Okafors.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert