270.000 notuðu þjónustu heilsugæslunnar

Stór hluti af komum yngstu barnanna er vafalítið vegna ung- …
Stór hluti af komum yngstu barnanna er vafalítið vegna ung- og smábarnaverndar, en tilgangur þeirrar þjónustu er að fylgjast með heilsu og þroska barna. mbl.is/Styrmir Kári

Ríflega 270 þúsund einstaklingar notuðu þjónustu heilsugæslunnar árið 2015 eða tæplega 82% allra landsmanna. Þar af áttu tæplega 222 þúsund einstaklingar viðtal við lækni á heilsugæslustöðvum landsins, eða um 67% allra íbúa. Yngstu börnin koma oftast og konur tíðari gestir en karlar.

Flestir komu og hittu lækni aðeins einu sinni á árinu eða tæplega 37%. Tæplega 23% komu tvisvar og tæplega 24% komu 3–4 sinnum á heilsugæslustöðvar til þess að hitta lækni. Um 17% þeirra sem notuðu þjónustu heilsugæslunnar á árinu komu oftar en fimm sinnum að hitta lækni.

Þetta kemur fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.

Þar segir, að komur á heilsugæslustöðvar séu skráðar sem viðtöl. Samtals voru tæplega 900 þúsund viðtöl skráð á heilsugæslustöðvum árið 2015, óháð starfsstétt heilbrigðisstarfsmanns. Það jafngildir 2,7 viðtölum á hvern íbúa landsins.

Um 17% þeirra sem notuðu þjónustu heilsugæslunnar á árinu komu …
Um 17% þeirra sem notuðu þjónustu heilsugæslunnar á árinu komu oftar en fimm sinnum að hitta lækni. mbl.is/Júlíus

Aðsókn breytileg eftir staðsetningu þeirra

Aðsókn að heilsugæslustöðvum er nokkuð breytileg eftir staðsetningu þeirra, en kveðið er á um skiptingu landsins í sjö heilbrigðisumdæmi í lögum um heilbrigðisþjónustu. Þannig voru komur á heilsugæslustöðvar fæstar á höfuðborgarsvæðinu árið 2015, 2,43 á hvern íbúa, en flestar á Vesturlandi (3,39 á íbúa) og á Suðurlandi (3,38 á íbúa).

Tekið er fram, að ástæður þessa munar geti m.a. legið í betra aðgengi íbúa höfuðborgarsvæðisins að ýmiss konar sérfræðiþjónustu utan heilsugæslunnar sem minna framboð er af í öðrum landshlutum.

Læknar sinntu stærstum hluta viðtala á heilsugæslustöðvum landsins árið 2015, eða 70% allra viðtala. Viðtöl við lækna voru lítillega fleiri árið 2015 heldur en árið áður, eða 627.501 (1,9 á íbúa) borið saman við 618.020 (1,9 á íbúa) árið 2014. Meginhluti þeirra fór fram á dagvinnutíma (74%) en tæplega 26% viðtala við lækna var sinnt utan dagvinnu.

Hjúkrunarfræðingar voru sú starfsstétt sem sinnti næststærstum hluta viðtala á heilsugæslustöðvum árið 2015, 20%, en auk þess var nokkur hluti viðtala á hendi ljósmæðra (6%). L

Munurinn milli kynjanna mestur á barneignaaldri

Ef allar komur (viðtöl), óháð starfsstétt heilbrigðisstarfsmanns, eru greindar eftir kyni og aldri þeirra sem nýta þjónustuna má sjá að langflest samskipti eru vegna yngsta aldurshópsins.

„Stór hluti af komum yngstu barnanna er vafalítið vegna ung- og smábarnaverndar, en tilgangur þeirrar þjónustu er að fylgjast með heilsu og þroska barna. Öllum foreldrum er boðið að koma á heilsugæslustöðvar með börn sín í skipulagðar skoðanir og bólusetningar en þær eru tíðastar fyrsta aldursár barna. Þá sýna gögn samskiptaskrár heilsugæslustöðva að konur nýta þjónustu heilsugæslunnar í talsvert meira mæli heldur en karlar, en árið 2015 voru ríflega 58% viðtala á heilsugæslustöðvum við konur. Munurinn milli kynjanna er ótvírætt mestur á barneignaaldri en sem kunnugt er sinna allar heilsugæslustöðvar mæðravernd í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði móður og barns, greina áhættuþætti og veita verðandi foreldrum fræðslu um meðgöngu og fæðingu. Munurinn milli kynjanna hvað aðsókn að heilsugæslustöðvum varðar minnkar svo eftir að miðjum aldri er náð,“ að því er fram kemur í fréttabréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert