„Dylgjur frá huldumanni úti í bæ“

Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði þau gögn sem umboðsmaður Alþingis segist hafa undir höndum vera „dylgjur frá huldumanni úti í bæ.“ Þetta kom fram í umræðum um þingsályktunartillögu um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 46,8% hlut í Búnaðarbankanum.

Tillagan var að lokum samþykkt með 52 atkvæðum. 

Í ræðu sinni sagði Vigdís að verið væri að misnota stofnanir Alþingis. Hún sagðist styðja tillöguna með þá von í brjósti að brátt væri hægt að hefja rannsókn á „seinni einkavæðingunni í tíð síðustu ríkisstjórnar.“

„Ég hef barist fyrir því í fimm ár að fá í gegnum Alþingi Íslendinga rannsókn á einkavæðingunni hinni síðari. Þessi tillaga hefur gefið mér færi á því að benda á hráskinnaleikinn sem fer hér fram.“

„Það er ótrúlegt að það sé ekki nokkur leið að fá því hreyft að hefja rannsókn á seinni einkavæðingunni í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem valdi var misbeitt, ríkissjóðúr settur í hættu og fleira sem kemur vonandi fram í dagsljósið á sumardögum. Hér er verið að taka upp antík mál sem gerðist fyrir 13 árum og er löngu fyrnt,“ sagði Vigdís.

„Bleiki fíllinn í stofunni stendur keikur“

Hún segir það bagalegt að ekki sé hægt að benda á sakarefnið sem rannsaka eigi. 

„Mér finnst það miður hvar Alþingi er statt eins og er. Það er ekki hægt að benda á sakarefnið, eða benda á nákvæmlega hvað það er sem á að rannsaka. Það er erfitt að finna nál í heystakki í svona máli sem er búið að rannsaka í þaula. En nei, Alþingi er að fara að rannsaka mál sem þegar er búið að rannsaka. Það veit enginn hvað á að rannsaka. Samt á að skipa nefnd sem skipar einn mann til að rannsaka þetta í enn eitt skiptið. Hvaða fíflagangur er þetta?“ spurði Vigdís.

Sjá frétt mbl.is: Nýjar upplýsingar um þátt bankans

Hún sagði þingsályktunartillöguna byggja á dylgjum. Nefndi hún meðal annars þátt Vilhjálms Bjarnasonar í málinu og sagði hann hafa farið með dylgjur í aðdraganda rannsóknar Ríkisendurskoðunar á einkavæðingu bankans árið 2006.

„Tillagan byggir á dylgjum, svo ekki sé meira sagt. Hvaða fordæmi gefur þetta til framtíðar?“ 

„Hvað ef þingmanni dettur í hug að ásaka einhvern í samfélaginu og fær stuðning til þess frá pólitískum samherja. Er þá hægt að misnota Alþingi með þeim hætti að hefja pólitíska rannsókn? Lærðum við ekkert af Hafskipsmálinu þar sem saklausir menn voru settir í varðhald? Ég hélt að þjóðin hefði verið í nógu miklum brotum eftir það mál en hér er búið að draga annað slíkt mál upp. Það eru sömu persónur og leikendur sem sitja í ákærendasætinu. Ég harma þetta mál og biðst afsökunar á því fyrir hönd  þingsins, að það sé hægt að elta fólk í samfélaginu út fyrir gröf og dauða. með fullri virðingu fyrir þeim sem látnir eru og setið hafa hér á þinginu og sinnt góðu starfi.“ 

Sjá frétt mbl.is: „Hvenær er nóg nóg?“

„Stóra málið, bleiki fíllinn í stofunni stendur keikur, og hann má ekki ræða, einkavæðing bankanna hin síðari,“ sagði Vigdís. 

Spurði hvort hún teldi rannsóknina pólitíska

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs og spurði Vigdísi þriggja spurninga. Hvort hún væri á móti því að rannsóknin sem umboðsmaður Alþingis kallaði eftir færi fram, hvort hún teldi að tilefni rannsóknarinnar sé pólitísks eðlis og sé runnin undan rifjum annarra stjórnmálaflokka til að sverta Framsóknarflokkinn og hvort hún teldi umboðsmann Alþingis vera að misnota stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vigdís sagðist ætla að styðja þingsályktunartillöguna. Þá sagði hún að það sé á gráu svæði að umboðsmaður Alþingis „beri inn í þingið óútskýrð skjöl frá huldumanni út í bæ.“ Sagði hún það sérstaklega á gráu svæði þar sem umboðsmaður sjálfur hafi setið í Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda bankahrunsins.

Hún sagðist ekki leggja mat á það hvort um væri að ræða árásir gegn Framsóknarflokknum. „Ég hef farið yfir það í máli mínu að rannsókn sem Alþingi leggur til og fer í, eigi að vera það vel búnar að ekki sé hægt að ná sér niður á pólitískum andstæðingum,“ sagði Vigdís.

Þá sagði hún umboðsmann Alþingis hafa öll völd og fjárráð til þess að fara í frumkvæðisathuganir í málinu. Fékk Vigdís þá frammíköll frá Össuri, en spurði á móti hvort hann hefði „kannski verið með í skúespilinu [í. leikritinu] þegar málið var lagt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Vigdís sagði þá að hún hafi lagt til á síðasta kjörtímabili að farið yrði í rannsókn á „einkavæðingunni hinni síðari“ en að þingheimur hafi hafnað tillögunni. 

Sjá frétt mbl.is: Þátttaka bankans vekur spurningar

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem nefndur var í ræðu Vigdísar, kvaddi sér þá hljóðs. 

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rósa Braga

Hann sagði að leiða mætti líkur á að sá Vilhjálmur Bjarnason sem Vigdís nafngreindi væri hann sjálfur. Þá sagðist hann hafa lagt fram gögn sem rötuðu til Ríkisendurskoðunar en að það hafi ekki verið dylgjur. „Ég óska eftir því að það komi fram í þingskjölum að ég hafi borið hönd yfir höfuð mér. Ég benti á á sínum tíma að sá sem var uppgefinn kaupandi í málinu hefði ekki getað verið kaupandinn. Nú mun fara fram rannsókn á því,“ sagði Vilhjálmur.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.

Segir rannsóknina fagnaðarefni

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs í umræðum um atkvæðagreiðsluna. Hann sagði tillöguna og samþykkt hennar vera mikið fagnaðarefni. „Frá 2012 hefur legið fyrir ályktun Alþingis um rannsókn á einkavæðingunni. Okkur hafa borist trúverðugar ábendingar um að fleiri upplýsinga um málið kunni að vera hægt að afla. Það er mikilvægt að læra af sögunni þar sem á næstunni liggur fyrir mikil sala ríkiseigna. Ef við sjáum ekki hætturnar sem kunna að leynast við sölu, getum við gert mikil mistök í framtíðinni,“ sagði Árni Páll.

Sjá frétt mbl.is: Gæti legið fiskur undir steini

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert