Löng biðröð klukkan 6 í morgun

Biðröðin var löng fyrir utan verslunina í morgun.
Biðröðin var löng fyrir utan verslunina í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Fólki hefur verið hleypt inn í hollum í verslun Elko á Granda síðan hún opnaði klukkan 7 í morgun. Tilefnið er opnun nýrrar og endurbættrar verslunar og voru ýmsar vörur á tilboði í takmörkuðu upplagi.

„Þegar ég kom klukkan sex í morgun var komin myndarleg röð. Það hefur verið að aukast jafnt og þétt við hana síðan,“ segir Magnús Torfi Magnússon, verslunarstjóri Elko á Granda.

Hann telur að röðin hafi talið um 60 manns og reiknar með því að hún hafi byrjað að myndast upp úr klukkan fimm í morgun.

Stóru sjónvörpin vinsælust

Þegar verslunin opnaði klukkan 7 hafði röðin tvöfaldast og var brugðið á það ráð að hleypa inn í hollum. „Við troðfylltum búðina strax og núna er röð í gegnum alla búðina á kassa,“ greinir Magnús Torfi frá og segir fjöldann hafa verið aðeins umfram væntingar.

Spurður segir hann að fólk sé helst að sækja í stóru sjónvörpin og einnig „stóru hvítu tækin“. Þar á hann við uppþvottavélar og þvottavélar.

Hann segir að enn sem komið er hafi engar vörur klárast en það fari að styttast í nýju Playstation-vélina, sem er í boði í 100 eintökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert