Ábendingin barst til lögreglunnar

Ákæra var gefin út í málinu árið 1977.
Ákæra var gefin út í málinu árið 1977. mbl.is

Lögreglunni barst ábendingin sem varð að lokum til þess að tveir menn voru handteknir í tengslum við endurupptökubeiðnirnar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Kom lögreglan ábendingunni á framfæri við saksóknarann í málinu sem kom ábendingunni svo til endurupptökunefndar. 

Þetta kemur fram í svari Björns L. Bergssonar, formanns endurupptökunefndar, við fyrirspurn mbl.is.

Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar.
Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar.

Björn gerir þó athugasemd við frétt mbl.is um að nefndin hafi óskað eftir handtökunum.

„Endurupptökunefndin beindi því til setts saksóknara að hann hlutaðist til um rannsókn þessarar ábendingar. Það gerði hann, fól lögreglunni þá rannsókn. Þar er málið statt. Endurupptökunefnd á þar enga aðild að og segir ekki fyrir um neinar einstakar rannsóknaraðgerðir, þar með talið handtökur, slíkt er ekki á valdi nefndarinnar.“

„Lögreglan er sem sagt með þetta til úrvinnslu. Af þeim sökum eru engar forsendur fyrir endurupptökunefnd að fjalla um aðgerðir á þessu stigi,“ segir Björn í svari sínu.

Að sögn hans er ráðgert að úrvinnslu þeirra endurupptökubeiðna sem fram eru komnar vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna ljúki í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert