Hörð gagnrýni í áliti siðarnefndar

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram kemur í áliti siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga að það beri ekki vott um sterka borgaralega ábyrgðarkennd að ráðstafa fjármunum sínum í aflandsfélög. Tilefni álitsins er framganga þeirra Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins en upplýst var í Kastljósinu í byrjun apríl að þau Júlíus Vífill og Sveinbjörg Birna hefðu bæði tengst aflandsfélögum. Júlíus sagði af sér sem borgarfulltrúi í kjölfar málsins en Sveinbjörg er í fæðingarorlofi og hefur ákveðið að snúa ekki aftur til starfa fyrr en athugun á hennar málum hefur verið lokið.

Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar óskaði eftir því í kjölfar Kastljósþáttarins að siðanefndin skoðaði mál þeirra Júlíusar og Sveinbjargar. Nefndin hefur ekki úrskurðarvald um hvort siðareglur hafi verið brotnar en getur veitt álit. Bent er á að borgarfulltrúum beri að fara að reglum um hagsmunaskráningu, forðast hagsmunaárekstra.

Eign í aflandsfélagi stangist enn fremur í það minnsta á við andann í reglum um að forðast misnotkun á almannafé. Þótt einkaeign í aflandsfélagi feli ekki í sér ráðstöfun á almannafé hafi verið færð fyrir því rök að slík eign hafi alvarlegar afleiðingar fyrir opinberan rekstur og íslenskt efnahagslíf almennt að mati nefndarinnar.

„Nefndin lítur svo á að skráðar siðareglur kjörinna fulltrúa séu liður í viðleitni þeirra til að sýna almenningi fram á að þeir starfi af heilindum að almannahag. Sú ákvörðun að velja einkaeignum sínum ógagnsæjan stað í aflandsfélagi gangi þvert gegn slíkri viðleitni,“ segir í niðurlagi álitsins.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert