Hrafn fær að vera í 15 ár

Húsið er í námunda við Elliðavatn.
Húsið er í námunda við Elliðavatn. Kort/map.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur heimilað Hrafni Gunnlaugssyni afnot af sumarhúsi við Helluvatn skammt austan við Elliðavatn í 15 ár. Þetta er niðurstaða dóms sem féll í síðustu viku. Er rétturinn bundinn við Hrafn og fellur niður að honum látnum.

 „Ég á alveg von á því að þessum dómi verði áfrýjað, því að okkar mati þá eru þetta ekki lögfræðilegar röksemdir fyrir niðurstöðunni,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Hrafns, í samtali við mbl.is.

Hrafn höfðaði dómsmál á hendur Orkuveitu Reykjavíkur í október í fyrra en hann krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að hann ætti afnotarétt af þeirri lóð sem sumarhús hans stendur á að Elliðavatnsbletti 3 í Reykjavík, aðallega ótíma­bund­inn en til vara til 75 ára, í báðum tilvikum talið frá uppkvaðningu dóms í mál­inu.

Hrafn Gunnlaugsson.
Hrafn Gunnlaugsson. mbl.is/Steinar

OR krafðist sýknu en til vara að afnotaréttur Hrafns af lóðinni yrði tímabundinn til 15 ára. Rétturinn yrði bundinn við Hrafn og falli niður að honum látnum.

Málið varðar það hvort Hrafn eigi rétt til afnota af lóð við Helluvatn, en það er lítið vatn austan við Elliðavatn og samtengt því. Reiturinn er auðkenndur sem Elliða­vatns­blettur 3 og munu ytri mörk hans óum­deild.

Hrafn og OR, sem á landið sem húsið stendur á, deildu um það hvort kom­ist hefði á samningur um afnot húseigandans af landinu á grund­velli munnlegs vil­yrðis þáverandi formanns stjórnar landeigandans.

Vildi að OR féllist á að réttur frá 1927 yrði framlengdur til barna hennar og barnabarna

Í dómi héraðsdóms kemur fram, að móðir Hrafns, Herdís Þorvaldsdóttir, sem átti húsið með honum, hafi ritað starfsmanni OR bréf í maí 2004. Í bréfinu óskaði hún eftir því að fyrirtækið féllist á að réttur sem tengdaföður hennar, Þórði Sveinssyni, hafi verið veittur með afsali 1927 yrði fram­lengdur þannig að hann næði til barna hennar og barnabarna.

Herdís Þorvaldsdóttir.
Herdís Þorvaldsdóttir.

Bréfið var stílað á Guðjón Magnússon sem þá hafði umsjón með þeim eignum Orkuveitunnar sem ekki tengd­ust veitustarfsemi. Í skriflegri yfirlýsingu, sem hann staðfesti fyrir dómi, segir að það hafi þá verið og sé enn yfirlýst stefna Orkuveitunnar að draga sem mest úr byggð á vatnsverndarsvæðum veitunnar. Þar eð Herdís hafi ekki verið barn Þórðar Sveins­sonar hafi hann talið að hafna bæri beiðninni en hafi lagt til að Hjörleifur Kvaran, sem þá var framkvæmdastjóri lögfræðisviðs fyrirtækisins, afgreiddi málið.

Stjórnarformaður OR vildi verða við beiðninni

Í skriflegri yfirlýsingu Alfreðs Þorsteinssonar, sem var formaður stjórnar Orku­veit­unnar á þessum tíma, og hann staðfesti fyrir dómi, segir að hann hafi sagt Herdísi að hann vildi verða við þessari beiðni hennar og hafi bent henni á að Hjörleifur Kvaran gengi frá málum sem þessum fyrir Orkuveituna. Vitnið stóð í þeirri trú að það hefði verið gert.

Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður OR.
Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður OR.

Guðmundur Þóroddsson, sem var forstjóri fyrirtækisins á þessum tíma, stað­festi það sem kemur fram í skriflegri yfirlýsingu að hann hefði ekki haft önnur afskipti af málinu en að formaður stjórnar hefði rætt það lauslega við hann. Hann hefði verið sammála stjórnarformanninum um það að litlu máli skipti þótt samn­ing­ur­inn væri endurnýjaður þar eð fjöldi bústaða væri þarna í kring, bústaðurinn væri á fjar­svæði vatnsverndar og neðan aðrennslisstrauma vatnstökusvæða þannig að ekki væri ástæða til að leggjast gegn afstöðu formannsins.

Hjörleifur Kvaran minntist þess ekki að Herdís hefði rætt við hann. Hann minntist þess hins vegar að Hrafn hefði rætt við hann um leigusamning. Hrafn hafi hins vegar ekki viljað greiða leigu fyrir afnot af landinu á meðan eitt­hvert barna afa hans, Þórðar Sveinssonar, væri á lífi. Þeir hafi hins vegar rætt um það hvort greiða ætti leigu fyrir landið í framtíðinni en í þeim umræðum hafi leigu­samn­ings­gerðin fjarað út.

OR skrifaði eigendum sumarhúsa bréf þar sem fram komu að það væri markmið OR að fækka sumarhúsum á svæðinu

Á svipuðum tíma og þessar viðræður Hrafns og Hjörleifs stóðu ritaði Orku­veitan öllum þeim sem áttu sumarhús við Elliðavatn bréf, 27. desember 2004. Þar segir:

„Það er markmið Orkuveitu Reykjavíkur að sumarhúsum á fjarsvæði B vatnsbóla verði fækkað skipulega m.a. með samningum við eigendur, eða í samráði við þá, á kom­andi árum. Í því sambandi vill Orkuveitan hafa frjálsari hendur en nú er varð­andi skipulag og alla þróun svæðisins. Það er einnig markmið Orkuveitunnar að samn­ingum um lóðir sumar­húsa á fjarsvæði B vatnsbóla á Elliðavatni verði ekki fram­lengt lengur en til 5 ára í senn.“ Þar segir enn fremur, að í þessu felist einnig að engin trygging sé fyrir því að einstakir samningar verði endur­nýjaðir þegar næsta 5 ára samningstímabili ljúki.

Samkvæmt bréfi Herdísar vildi hún fá einhverja tryggingu fyrir því að hús sem hún hafði hug á að reisa ofan á þeim grunni sem eftir stóð eftir að eldra húsið brann gæti staðið til einhverrar fram­tíðar.

Lagði traust á orð stjórnarformannsins

Héraðsdómur segir, að hugsanlega megi fallast á það að hún hafi gengið fram af kappi fremur en for­sjá með því að hefjast handa við að fá teiknað og byggt hús áður en skriflegt sam­þykki lá fyrir. Hins vegar muni hafa verið mjög auðvelt að hefja bygg­ing­ar­fram­kvæmdir þar eð nýja húsið hafi verið reist á gamla sökklinum.

Að mati dómsins þykir framganga hennar þó sýna að hún hafi lagt traust á það að formaður stjórnar stefnda hafi gefið henni nægjanlega áreiðanlegt vilyrði fyrir því að húsið gæti staðið um einhverja framtíð.

Þar fyrir utan voru á þessum tíma þrjú börn Þórðar Sveinssonar á lífi og lögðu afkom­endur Þórðar þann skilning í orðalag afsalsins frá 1927 að væri afkomandi hans á lífi hefðu þau afnotarétt af lóðinni þótt sá afkomandi ætti ekki húsið sem stæði á lóð­inni.

mbl.is/Ernir

Hvorki hægt að fallast á afstöðu OR né Hrafns

Dómurinn getur því hvorki fallist á þá afstöðu OR að húsið hafi verið byggt í algerri óvissu um heimild húseigenda til frekari afnota af lóðinni né á þá afstöðu Hrafns að bindandi samningur um ævilöng afnot hafi verið kominn á.

Samkvæmt framburði formanns stjórnar Orkuveitunnar stóð aldrei annað til en að það vilyrði sem hann veitti Herdísi yrði fært í skriflegan búning. Miðað við fram­burð yfirmanns lög­fræði­sviðs Orkuveitunnar átti sá búningur að vera leigusamningur.

Afstaða Orkuveitunnar var sú að fækka skipulega sumarbústöðum á vatns­vernd­ar­svæði sem nefnt var fjarsvæði B og gera einungis og alfarið skamm­tíma­samn­inga, til 5 ára. Vilyrði stjórnarformannsins, sem virðist hafa átt að taka til ævi barna og barna­barna Herdísar, var því ósamrýmanlegt þessu tímaviðmiði í stefnu stofn­unar­innar sem hann stýrði.

OR getur ekki gert lengri samninga en til fimm ára í senn vegna meginreglunnar um jafnræði borgaranna

Þrátt fyrir velvild einstaka stjórnanda í garð einstaka sum­ar­húsa­eig­anda gilda meg­in­reglur stjórnsýsluréttar um Orkuveitu Reykjavíkur enda er hún opinbert fyrir­tæki. Vegna meg­in­regl­unnar um jafn­ræði borgaranna hefði fyrir­tækið að mati dómsins aldrei getað gert lengri samn­ing, munn­legan eða skriflegan, gegn gjaldi eða án gjalds, hvort heldur er við Her­dísi eða Hrafn, en við aðra eig­endur sumarhúsa á fjarsvæði B, það er til fimm ára í senn. Ekki verður séð að nein sér­stök atvik réttlæti að vikið sé frá jafnræðisreglunni, jafnvel ekki þótt bústað­ur­inn kunni að liggja neðan aðrennslis­strauma vatns­töku­svæða. Á þá full­yrð­ingu hafa reyndar ekki verið færðar neinar sönnur.

Sé litið svo á að réttur til afnota af lóðinni hafi staðið þar til langlífasta barn Þórðar Sveins­sonar væri fallið frá hefði nýr samningur um afnot ekki þurft að kom­ast á fyrr en í janúar 2013.

Óheimilt að framselja afnotaréttinn

Héraðsdómur segir, að vilji og vald stjórnvalda og stjórnenda opin­berra fyrirtækja sé bundinn af lögum, jafnræðisreglu þeirra á meðal. Þannig verði OR að gera sambærilega samninga við þá sumarhúsaeigendur sem séu í sam­bæri­legri stöðu. Dómurinn fái ekki séð að nein þau atvik eða aðstæður Hrafns rétt­læti að vikið sé frá þeim skil­málum sem aðrir þeir sem eigi sumarhús við Elliða­vatn séu bundnir eða verði innan tíðar bundnir af samkvæmt samkomulagi um skil á lóð.

„Dómurinn fær því ekki séð að unnt sé að gefa því vilyrði, sem formaður stjórnar fyrir­tæk­is­ins gaf Herdísi, annað efni en þeim skriflegu samningum sem gerðir voru við aðra eigendur sumarhúsa á því landi sem Orkuveitan á við vatnið. Þetta þýðir að afnotaréttur stefnanda af lóðinni Elliðavatnsblettur 3 getur ekki staðið lengur en í 15 ár frá því að þessi dómur er kveðinn upp og jafnframt að óheimilt sé að framselja þann afnotarétt og öll aðilaskipti að afnotum lands­ins séu bönnuð. Þetta þýðir að afnota­rétt­ur­inn er bundinn við stefnanda,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms.

Vilja Hrafn í burtu af sumarhúsalóð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert