Létu slag standa og fluttust

Elísabet Sigurðardóttir og Ragnar Baldvinsson hafa gaman af því að …
Elísabet Sigurðardóttir og Ragnar Baldvinsson hafa gaman af því að hjóla og leigja út hjól til ferða- manna sem leið eiga um Mývatnssveitina, að sumri sem vetri. mbl.is/Golli

Elísabet Sigurðardóttir og Ragnar Baldvinsson festu kaup á ferðaþjónustufyrirtækinu Hike and Bike við Mývatn í vor og hófu reksturinn 1. apríl síðastliðinn. Fyrirtækið var stofnað árið 2010 en fyrri eigandinn rak það einungis á sumrin.

Elísabet er fædd í Mývatnssveit og bjó þar þangað til hún var sextán ára þegar hún fór í framhaldsskóla. Eftir það flutti hún til Reykjavíkur, fór svo austur á land og flutti síðan aftur til Reykjavíkur.

Aðspurð segir hún það ávallt hafa blundað í sér að flytja aftur heim. Þegar rétti tímapunkturinn kom fyrir þremur árum ákváðu þau að láta slag standa og sjá ekki eftir því. Ragnar er úr Árbænunum í Reykjavík en auðvelt reyndist að sannfæra hann um að flytja norður.  

Lægð eftir að kísiliðjunni var lokað

Elísabet segir töluvert um það að brottfluttir Mývetningar flytji aftur heim.  „Það kom svolítil lægð eftir að kísiliðjunni var lokað [árið 2004]. Margir misstu vinnuna en það voru ekki rosalega margir sem fluttu í burtu. Sumir fóru austur í álversframkvæmdirnar og einhverjir fóru að vinna á Kárahnjúkum en bjuggu áfram hér. Það kom samt söguleg lægð í fólksfjölda en núna er þetta á uppleið,“ segir hún og bætir við að ekki bara uppaldir hafi flutt á svæðið heldur einnig annað fólk, enda næg atvinna í boði.

Tvær stúlkur hjóla eftir veginum fyrir framan Hike and Bike.
Tvær stúlkur hjóla eftir veginum fyrir framan Hike and Bike. mbl.is/Golli

Erfitt að fá húsnæði 

Erfiðara er að fá húsnæði í Mývatnssveit. Elísabet og Ragnar leigja neðri hæðina í húsi föður hennar en aðrir hafa ekki verið eins heppnir. „Sveitarfélagið veit af þessum húsnæðisvanda. Það húsnæði sem er hérna fyrir er að mestu upptekið og það er til í dæminu að útlendingar sem vinna hér vilja vera hér áfram og leigja litla íbúð en það er ekki í boði.“

Til að bregðast við hluta vandans ætlar sveitarfélagið að byggja íbúðir við nýja götu sem nefnist Klappahraun í sumar. Eitt hús hefur þegar risið þar en fleiri eru á leiðinni.

Slösuðum ferðamönnum fjölgar

Ragnar er félagi í björgunarsveitinni Stefáni. Flest útköll koma á veturna þegar bílar eru fastir í snjó. Á sumrin hefur útköllum þó fjölgað í tengslum við slasaða ferðamenn. „Það er snúinn ökkli, handleggsbrot eða fótbrot við Dettifoss, í Dimmuborgum eða Hverfjalli. Svo eru kvikmyndaverkefni það nýjasta. Björgunarsveitin hefur verið fengin til að vera á vakt og sjá um öryggismál og passa upp á að enginn fari inn á svæðið sem er ekki með heimild,“ segir hann.

Á vakt vegna Holuhrauns

Sjálfur hefur hann ekki verið á vakt í þeim verkefnum en tók aftur á móti þátt í lokun á vegi vegna eldgossins í Holuhrauni. „Það var ansi spennandi. Ég var við póstinn við Þjóðveg 1 og veginn upp í Öskju. Það var svolítið rennirí af fólk sem var forvitið um gosið og vildi vita hvort það væri hægt að komast upp að gosstöðvunum.“ Gosið stóð yfir í tæpa sjö mánuði og var mest að gera um haustið, þegar enn var fært.

Elísabet og Ragnar segja ferðaþjónustuna sem þau reka ganga vel. Ferðamenn leigja hjá þeim hjól og fara jafnan hringinn í kringum Mývatn. Sumir gista í Hótel Reykjahlíð í nokkrar nætur og nýta sér pakkaferðir sem eru einnig í boði hjá fyrirtækinu. „Það hefur verið lítil starfsemi á veturna hjá Hike and Bike en við stefnum á að gera meira úr því enda er nóg af fólki sem kemur hingað á veturna,“ segir Elísabet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert