Öskraði í stofunni um miðja nótt

Böðvar Ingi Guðbjartsson og Einar Jóhannes Guðnason horfðu saman á …
Böðvar Ingi Guðbjartsson og Einar Jóhannes Guðnason horfðu saman á leikinn. Ljósmynd/Iðunn Embla Einarsdóttir

Fylgst var með leik Íslands og Austurríkis víða um heim í gærkvöldi. Nágrannar Einars Jóhannesar Guðnasonar, sem búsettur er í Ástralíu, hafa eflaust hrokkið í kút um klukkan fjögur í nótt að staðartíma þegar hann og eiginkona hans fögnuðu marki Arnórs Ingva Traustasonar gríðarlega á lokasekúndum leiksins í gær.

Einar spjallaði við mág sinn, Böðvar Inga Guðbjartsson, um leikinn á Skype meðan á leiknum stóð en sá síðarnefndi var staddur á heimili sínu í Hafnarfirði. Leikurinn hófst kl. 2 um nótt að staðartíma í Ástralíu en kl. 16 síðdegis á Íslandi.

„Síðustu fimmtán mínúturnar voru auðvitað búnar að vera fáranlega stressandi. Austurríki var búið að vera svo mikið í sókn. Síðan kom þessi skyndisókn og maður var ekkert að hugsa um hvað klukkan væri,“ segir Einar.

Aðspurður segir hann að engar kvartanir hafi borist vegna látanna í nótt. „Ég var að hugsa um að senda nágrönnunum SMS og útskýra málið. Kannski héldu þau að við værum að rífast og hafa ekki þorað að spyrja,“ segir Einar. Það var þó fjarri lagi, aðeins var um fagnaðarlæti að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert