„Mannið varðskipin, við förum út“

Eyja, Bóas, Bjarki og Ásdís Ósk voru hress á Arnarhóli …
Eyja, Bóas, Bjarki og Ásdís Ósk voru hress á Arnarhóli í kvöld. mbl.is/Þórður Arnar

„Tilfinningin var ólýsanleg. Viðbrögðin við sigrinum voru tekin upp á vídeó og það er ekki falleg sjón. Ég hellti niður öllum bjórnum,“ segir Bjarki Bóasson sem var staddur á Arnarhóli við leik Íslands og Englands í kvöld ásamt þeim Bóasi, Eyju Elísabetu og Ásdísi Ósk.

Þau fjölskyldan horfðu á leikinn heima en komu niður í bæ eftir að sigurinn var orðinn staðreynd. „Sú gamla var grátandi úti í horni yfir þessu,“ segir Bjarki og bendir á Eyju Elísabetu sem viðurkennir það og segir þetta hafa verið taugatrekkjandi augnablik.

Fjölskyldan var búin að ákveða að koma niður í bæ ef Ísland skyldi vinna og stóð hún svo sannarlega við það. Þau þurftu að mála sig í fánalitunum áður en þau mættu og þá voru góð ráð dýr. En því var bjargað með augnskugga og naglalakki sem saman mynduðu íslenska fánann í andlitum þeirra.

Bóas var að vonum ánægður með spilamennsku Íslands í kvöld. „Mér leið ótrúlega vel yfir þessu. Mér fannst vörnin bara góð, Englendingar voru ekkert hættulegir þegar leikurinn er gerður upp á eftir.“

Eyja tekur í svipaðan streng. „Eftir á að líta var þetta nokkuð „safe“ en á meðan á þessu stóð var ég mjög stressuð.“

Þau segja það heilla mjög að panta sér nú ferð út á næsta leik Íslendinga sem verður við Frakkland í París. „Nú bara mönnum við varðskipin og þá eru allir Íslendingar komnir þangað á morgun,“ segir Eyja Elísabet.

„Við tökum bara Norrænu og keyrum til Parísar,“ bætir Bjarki við.

„Ekki hlegið jafnmikið að mér núna“

„Þetta var tryllingur,“ segja þau Laufey, Konráð, Silja Sif og Sara við blaðamann mbl.is í kvöld en þau voru líka stödd á Arnarhóli. „Þetta var svipuð tilfinning og á Stade de France í síðustu viku,“ segir Konráð og bætir við: „Því miður.“ Hann segist hafa viljað sjá þennan leik úti. Við leikslok reyndi hann svo strax að panta sér miða á næsta leik. „Ég var að reyna að bóka flug en netið hérna var svo hægt að ég missti af því. En ég á miða á úrslitaleikinn. Ég vona að það verði ekki hlegið jafnmikið að mér nú og þegar ég keypti hann,“ segir Konráð.

Laufey, Konráð, Silja Sif og Sara.
Laufey, Konráð, Silja Sif og Sara. mbl.is/Þórður Arnar

Þau segja stemninguna hafa verið ólýsanlega allan leikinn. „Ég var mjög spennt og við vorum stressuð. Tíminn leið ekki neitt. Það var mjög óþægilegt. En svo var geðveikt í leikslok þegar allir sungu saman. Það er svo mikil samheldni í Íslendingum þegar Ísland kemur saman á svona stórmótum,“ sögðu þau við mbl.is.

Ætlar að finna sér lið í ensku

„Þetta var geðveikt. Það er ekki hægt að lýsa þessu, þetta var svo yndislegt. Röddin er alveg farin,“ segir Hermann Óli Bjarkason við mbl.is en hann var ásamt þeim Kristínu Ýr Gunnarsdóttur, Ágústu Borg Birgisdóttur, Huldu Líf Bjarkadóttur, Helgu Þormóðsdóttur, Ingu Rut Jónasdóttur og Bjarka Þór Birgissyni á Arnarhóli í kvöld.

Kristín Ýr Gunnarsdóttir, Ágústa Borg Birgisdóttir, Hermann Óli Bjarkason, Hulda …
Kristín Ýr Gunnarsdóttir, Ágústa Borg Birgisdóttir, Hermann Óli Bjarkason, Hulda Líf Bjarkadóttir, Helga Þormóðsdóttir, Inga Rut Jónasdóttir og Bjarki Þór Birgisson. mbl.is/Þórður Arnar

„Við öskruðum bara allt mögulegt. Ég fékk svo bara í eyrun því Hermann öskraði svo hratt,“ segir Ágústa Borg og hlær.

„Ég öskraði allt það sem var ekki hægt að öskra,“ viðurkennir Hermann Óli.

„Ég er ekki manneskjan sem horfir venjulega á fótbolta. En nú er ég, eftir að hafa fylgst með Íslandi í þessu, alveg að spá í að fara að fylgjast með einhverju liði í ensku deildinni, bara til að fá þessa stemningu,“ segir Kristín Ýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert