Líf komst þökk sé Þór

Hægt var að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja veikan sjómann í gær þökk sé búnaði í varðskipinu Þór sem gerir þyrlunni kleift að taka eldsneyti frá skipinu á flugi. Þyrlan hafði verið við æfingar við Dýrafjörð þegar beiðnin barst.

Fiskiskipið sem sjómaðurinn var á var um 50 sjómílur norðvestur af landinu þegar það sendi beiðni um að þyrla yrði send til að sækja veikan mann um borð. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að eftir samráð við lækni hafi verið ákveðið að senda þyrlu til móts við skipið og flytja sjúklinginn á Landspítalann í Fossvogi. 

Skipstjórinn var því beðinn um að taka stefnuna í átt að landi til að stytta flugtímann. Þyrlan TF-GNÁ með lækni um borð var send af stað til að flytja sjúklinginn. Þyrlan TF-LÍF var á æfingu með varðskipinu Þór við mynni Dýrafjarðar þegar beiðnin barst en enginn læknir um borð.

Mögulegt var að senda TF-LÍF til móts við skipið til að stytta viðbragðstímann þar sem V/S Þór er útbúinn svokölluðum HIFR-búnaði sem gerir þyrlunni kleift að taka eldsneyti frá skipinu á flugi.
TF-LÍF náði í sjúklinginn og flaug til móts við TF-GNÁ sem svo báðar lentu á Ísafirði þar sem læknirinn fór frá TF-GNÁ og um borð í TF-LÍF sem svo flutti sjúklinginn áleiðis til Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert