Mikil uppbygging í Sóltúni

Mynd af svæðinu.
Mynd af svæðinu. Ljósmynd/Sóltún

Framkvæmdir standa nú yfir í Sóltúni í Reykjavík við nýjar öryggis- og þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara. Fyrirhugað er að byggja upp alhliða þjónustu fyrir eldri borgara á svæðinu sem ber heitið Sóltúnsþorpið. Íbúðirnar verða afhentar vorið 2017 og er sala á þeim hafin.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir að verið sé að koma til móts við aukna spurn á fasteignamarkaði eftir þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara. Sóltún öryggis- og þjónustuíbúðir henti vel fyrir þá sem kjósa að búa á eigin heimili en þurfa margvíslega þjónustu. Stefnt er að því að bjóða upp á heimahjúkrun og heimaþjónustu fyrir þá sem þess þurfa.

Fyrsta skrefið í uppbyggingu Sóltúnsþorpsins var hjúkrunarheimilið Sóltún. Nú standa til boða 44 öryggis- og þjónustuíbúðir að Sóltúni 1–3 og síðar er stefnt á að bæta við fjórðu hæðinni við hjúkrunarheimilið Sóltún og opna nýtt hjúkrunarheimili við Sóltún 4.

Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öryggis- og þjónustuíbúða.
Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öryggis- og þjónustuíbúða. Ljósmynd/Sóltún

Á milli beggja hjúkrunarheimilanna er fyrirhugað að reisa tengibyggingu sem verður þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara sem búa í íbúðunum og hverfinu. Í þjónustumiðstöðinni verður veitingastaður, líkams- og hugarrækt, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, miðstöð heilbrigðisþjónustu og heimahjúkrunar og aðstaða fyrir hvers kyns félagsstarf.

„Þjóðin er að eldast og það er að fjölga í elsta hópnum, nú þegar er mikil eftirspurn eftir þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara.  Með uppbyggingu á Sóltúnsþorpinu er verið að bjóða upp á nýjan valkost sem býður upp á fjölbreytileika og aukna þjónustu við þá einstaklinga sem kjósa að búa á eigin heimili lengur,“ segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öryggis- og þjónustuíbúða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert