Hefur ekki áhrif á klíníska starfsemi

Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.
Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

Alls hafa átján starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands misst störf sín en þeir voru í 13,1 stöðugildi hjá stofnuninni. Þetta staðfestir Cecilie B. H. Björgvinsdóttir, mannauðsstjóri HSU, í samtali við mbl.is.

Fyrst var greint frá málinu á Eyjar.net í morgun.

„Þetta er búið að vera að eiga sér stað síðan í apríl. Við höfum verið í endurskipulagningu og niðurlagningu á störfum til þess að halda starfseminni innan ramma fjárlaga,“ segir Cecilie en bætir við að ekki sé aðeins um að ræða beinar uppsagnir. „Eitthvað af þessu eru tímabundnar ráðningar sem hafa verið látnar renna sitt skeið.“

Mun ekki hafa áhrif á klíníska starfsemi

Cecilie segir að flestar uppsagnir hafi verið á Heilbrigðisstofnuninni á Selfossi, en þær hafi þó snert fjölmargar einingar stofnunarinnar. Hún fullyrðir þó að uppsagnirnar muni ekki hafa áhrif á klíníska starfsemi HSU, þar sem um sé að ræða niðurskurð á skrifstofustörfum og stjórnendastörfum en ekki störfum sem snúa beint að sjúklingum.

Cecilie B. H. Björgvinsdóttir, mannauðsstjóri HSU.
Cecilie B. H. Björgvinsdóttir, mannauðsstjóri HSU.

„Það sem við höfum staðið frammi fyrir er að verkefnin hafa vaxið og sérstaklega í bráðaþjónustu og utanspítalaþjónustu, eða sjúkraflutningum. Við höfum lagt metnað okkar í að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna, semsagt klínísku þjónustuna. Þetta hafa því meira verið störf sem varða aðra hluta starfseminnar eins og störf á skrifstofu framkvæmdastjórnar. Svo höfum við verið að sameina einingar í eina einingu og setja yfir þær einn stjórnanda svo þetta hafa fyrst og fremst verið stjórnendur og starfsmenn í öðrum störfum en snúa beint að sjúklingum,“ segir hún.

Fjárhagsleg staða stofnunarinnar erfið

Frá sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi á árinu 2014 hefur átt sér stað veruleg fjölgun verkefna hjá stofnuninni og hefur álag aukist á öllum sviðum þjónustunnar, einkum þó bráða- og utanspítalaþjónustu. Fjárhagsleg staða stofnunar er hins vegar erfið og vantar nokkuð upp á að jafnvægi verði náð í rekstri auk þess sem stofnunin glímir við eldri skuldavanda fyrrverandi heilbrigðisstofnana á Suðurlandi.

Að því er fram kemur í skriflegu svari frá Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra HSU, var ljóst að það stefndi í vanda í rekstri eftir fyrsta ársfjórðungsuppgjör HSU nú á árinu. Þá hafi verið mikill þrýstingur á kostnaði við rekstur sjúkrasviðs. 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.

„Eitt af markmiðum framkvæmdastjórnar HSU var að á þessu ári skyldi endurskoða skipulag þjónustu og mönnun með því að tryggja sem besta og öruggasta þjónustu fyrir það fjármagn sem stofnunin fær úthlutað. Þetta er viðvarandi verkefni heilbrigðisstofnanna og skylda okkar að nýta sem best það fjármagn sem við fáum til þjónustunnar. Forstjóri hafði því frumkvæði af því eftir umtalsverða vinnu framkvæmdastjórnar í aprílmánuði að skila til ráðherra tillögum að endurskipulagi og hagræðingaraðgerðum. Þær tillögur voru sendar til Velferðarráðuneytisins í lok apríl.“

Í framhaldi af því og góðu samráði við ráðuneytið hafi verið ákveðið af hálfu HSU að grípa til viðamikilla aðgerða við endurskipulagningu og hagræðingu í starfsemi stofnunarinnar. Þingmönnum voru kynntar þessar fyrirætlanir og haldinn upplýsingafundur með sveitastjórnum á Suðurlandi 31. maí s.l. þar sem málefni er varða tiltekt í rekstri og skipulagsbreytingar innan HSU voru kynntar.

Dregið úr rúmafjölda yfir sumarið

Endurskipulag átti sér stað á mönnun hjúkrunardeilda á Selfossi þar sem tvær 20 rúma deildir voru sameinaðar í eina hjúkrunardeild sem skapar aukið svigrúm til samvinnu. Engin breyting verður gerð á sjúkrahúsþjónustu hjá HSU en þó sé dregið aðeins úr rúmafjölda yfir sumarið. Fjögur sjúkrarúm eru lokuð á Selfossi í sumar og fjögur sjúkrarúm í Vestmannaeyjum.„Það er eitthvað sem hefur aðallega með afleysingar að gera, þar sem það hefur ekki verið auðvelt að fá afleysingar inn í heilbrigðiskerfið. Þær lokanir eru aðeins frá júní fram í ágúst.“

Cecilie segir málið hafa verið unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, og reynt hafi verið að milda niðurskurðinn af fremsta megni. „Við höfum fengið skilning á okkar málum hjá ráðuneytinu, sem hefur unnið mjög vel með okkur,“ segir hún.

Erfitt fyrir þá sem fyrir því verða

Af þeim 18 starfs­mönn­um sem misstu vinnu sína má telja að 5 ein­stak­ling­ar hafi misst starf hjá HSU en 2 af þeim fimm áttu rétt til árs biðlauna. Aðrir starf­menn sem aðgerðirn­ar snertu fengu ekki end­ur­nýj­un samn­inga eða voru boðin laus störf inn­an stofn­un­ar­inn­ar. 

Stjórn­end­ur stofn­un­ar­inn­ar hafi þó látið staðar numið núna, og í fram­hald­inu verði skoðað hvernig breyt­ing­arn­ar sem hafa verið gerðar muni hafa áhrif á heild­ar­starf­sem­ina. „Þess ber líka að geta að á stofnuninni starfa 430 starfs­menn svo þetta er ekki stór hluti starfs­manna þó þetta sé vissu­lega erfitt fyr­ir þá sem verða fyr­ir því, og alltaf sársaukafull aðgerð“ seg­ir Cecilie og bæt­ir við að ár­ang­ur þess­ara aðgerða verði end­ur­skoðaður síðsum­ars og í kjöl­farið verði lagðar fram til­lög­ur um fram­haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert