Regnbogalituð borg og hinsegin bjór

Regnboginn á Skólavörðustíg vakti mikla athygli.
Regnboginn á Skólavörðustíg vakti mikla athygli. mbl.is/Þórður Arnar

„Hátíðin hefur verið að vaxa og dafna gríðarlega vel síðustu ár og ég held að það sé ekkert sem bendi til þess að hún verði neitt minni eða síðri í ár,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, gjaldkeri Hinsegin daga, en dagskrá hátíðarinnar var kynnt í gær samhliða því að hátíðarrit ársins kom út.

Hátíðin í ár verður opnuð með sambærilegum hætti og í fyrra þegar Skólavörðustígurinn var málaður í regnbogalitunum. Í ár verður nýr staður málaður, en staðsetningin verður tilkynnt þann 1. ágúst. „Þetta heppnaðist svo vel í fyrra að við ákváðum að gera þetta aftur í ár og það er gaman að finna hvað það er mikill spenningur fyrir þessu,“ segir Gunnlaugur.

Þá hefur í fyrsta sinn verið bruggaður sérstakur bjór fyrir hátíðina og mun hluti ágóða af sölu hans renna til hinsegin málefna. „Bruggmeistari Bryggjunnar er búinn að liggja yfir uppskriftunum sínum og bruggaði bjór sem er kominn á krana á Bryggjunni brugghúsi,“ segir Gunnlaugur og bætir við að bjórinn hafi verið smakkaður í fyrsta skipti í útgáfuteitinni í gær. „Og hann bragðast bara mjög vel.“

Gunnlaugur Bragi Björnsson, gjaldkeri Hinsegin daga.
Gunnlaugur Bragi Björnsson, gjaldkeri Hinsegin daga. mbl.is/Árni Sæberg

Sagan og brautryðjendur sett í forgrunn

Þema hátíðarinnar í ár er saga hinsegin fólks og eru þeir sem rutt hafa brautina í réttindabaráttunni settir í forgrunn. „Það fólk er ástæðan fyrir því að við erum þar sem við erum í dag,“ segir Gunnlaugur og bætir við að þemað endurspegli mikilvægi hátíðarinnar.

„Við fáum alltaf sömu spurningarnar á hverju ári: „Af hverju Hinsegin dagar?“, „Er þetta ekki komið gott?“, „Eru ekki Hinsegin dagar alla daga?“ en við komumst ekki hingað á einni nóttu. Það var fólk sem barðist fyrir þessu og ruddi brautina,“ segir hann. „Það er fullt af hlutum í sögunni okkar sem eru skemmtilegir og áhugaverðir en aðrir sem eru sorglegir og erfiðir. Þetta er allt eitthvað sem við þurfum að vera meðvituð um og skoða.“

Áhersla lögð á fræðsluviðburði

Gunnlaugur segir áherslu verða lagða á fræðsluviðburði og í dagskránni megi m.a. finna hinsegin kynfræðslu, sérstaka málstofu hugsaða fyrir starfsfólk skóla og frístundamiðstöðva þar sem rætt verður um niðrandi orðræðu og hvað starfsmenn geta gert til að hjálpa til í þeirri baráttu auk þess sem haldið verður erindi sem fjallar um það af hverju íþróttir urðu hómófóbískar.

Þá verður Imrov Ísland með sérstaka hinsegin spunasýningu í tilefni Hinsegin daga og Dragsúgur kemur í fyrsta skipti fram á Hinsegin dögum með sérstaka dragsýningu. Auk þess verða haldnir klassískir tónleikar í Hörpu þar sem aðeins verða flutt verk eftir hinsegin höfunda og farin verður söguganga um höfuðborgina auk fjölda annarra viðburða. Hápunkturinn verður svo Gleðigangan sem gengin verður laugardaginn 6. ágúst.

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga en dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt.
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga en dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Pride-hátíðarhöldin fjölmennari en hátíðarhöld á þjóðhátíðardaginn

Hátt í hundrað þúsund manns hafa tekið þátt í hátíðarhöldunum í kringum Gleðigönguna síðustu ár og segir Gunnlaugur að Ísland sé líklega með fáum þjóðum í heiminum þar sem Pride-hátíðarhöld eru fjölmennari en hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi landsins.

Er þetta í fjórða sinn sem Gunnlaugur kemur að skipulagningu hátíðarinnar og viðurkennir hann að mikil vinna fylgi því að setja hana á stokk. „En maður er að vinna með ótrúlega mörgu ótrúlega flottu fólki fyrir mjög mikilvægan málstað og þegar maður stendur og horfir á Arnarhól fyllast og Gleðigönguna koma þá verður þetta allt þess virði,“ segir hann að lokum.

Hér má finna dagskrá Hinsegin daga.

Hátt í hundrað þúsund manns hafa tekið þátt í hátíðarhöldunum …
Hátt í hundrað þúsund manns hafa tekið þátt í hátíðarhöldunum í kringum Gleðigönguna síðustu ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert