Nýtt 450–700 íbúða hverfi í Garðabæ

Gert er ráð fyrir talsverðri uppbyggingu meðfram Hafnarfjarðarveginum í vinningstillögunni. …
Gert er ráð fyrir talsverðri uppbyggingu meðfram Hafnarfjarðarveginum í vinningstillögunni. Þá er gert ráð fyrir almenningstorgi og samgöngumiðstöð ofanjarðar en að vegurinn verði settur í stokk fyrir neðan. Mynd/Batteríið

Arkitektastofan Batteríið, landslagsarkitektastofan Landslag og verkfræðistofan Mannvit sigruðu nýlega í samkeppni um nýtt rammaskipulag Lyngássvæðisins í Garðabæ, en þar er gert ráð fyrir um 450 til 700 íbúðaeiningum og um 1.000 til 1.600 íbúum.

Svæðið nær meðfram Hafnarfjarðarveginum og er á svæðinu milli Fitjahverfis í Garðabæ að Sjálandshverfi. Í vinningstillögunni er meðal annars horft til þess að koma Hafnarfjarðarveginum í stokk og þar ofan á væri eins konar breiðstræti með nýrri samgöngumiðstöð fyrir Garðabæ.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar og formaður dómnefndar, segir í samtali við mbl.is að tillagan að samkeppninni hafi verið samþykkt einróma á fundi bæjarstjórnar 1. október á síðasta ári. Í framhaldinu hafi verið rætt við Arkitektafélag Íslands og ákveðið að auglýsa samkeppni þar sem stefnan væri á raunhæfa uppbyggingu svæðisins þar sem áhersla væri á íbúðabyggð, sérstaklega fyrir ungt fjölskyldufólk.

Vinningstillagan um rammaskipulag á Lyngássvæðinu.
Vinningstillagan um rammaskipulag á Lyngássvæðinu. Mynd/Batteríið

Segir hún að með það í huga sé horft til þess að ekki verði bara byggðar blokkir, heldur verði einnig talsvert um lítil rað- og parhús. „Litlar einingar með aðgangi að garði,“ segir Áslaug og bætir við að á svæðinu sé stutt í ylströndina í Sjálandshverfinu sem og hraunjaðarinn. Þá muni Hraunholtslækurinn renna í gegnum svæðið.

Vinningstillagan gerir ráð fyrir því að Hafnarfjarðarvegurinn verði lagður í stokk. Áslaug tekur fram að það yrði þó á vegum Vegagerðarinnar, en bæði Garðabær og Hafnarfjörður hafi rætt við Vegagerðina um slíkt í nokkurn tíma. Segir hún stokk á þessu svæði vera einu skynsamlegu lausn til framtíðar og að stjórnendur Garðabæjar telji slíka framkvæmd langt í frá óhugsandi.

Áslaug segir að ljóst sé að í Garðabæ vanti litlar íbúðir. Bærinn hafi ekki verið nógu samstilltur við markaðinn, en talsverð vöntun hefur verið á minna húsnæði undanfarin ár á höfuðborgarsvæðinu. Segir hún að þar hafi unga fólkið orðið út undan.

Meðal þess sem gert er ráð fyrir á svæðinu er nýr leikskóli og íbúðir fyrir fatlaða, en Áslaug segir að þrátt fyrir talsverðan íbúafjölda á þessu nýja svæði sé ekki gert ráð fyrir nýjum grunnskóla. Nálægt séu Flata-, Garða- og Sjálandsskóli sem geti bæði tekið við fleiri nemendum og þá sé að einhverju leyti hægt að stækka þá.

Ofanjarðar á Hafnarfjarðarveginum er gert ráð fyrir samgöngumiðstöð og talsverðri …
Ofanjarðar á Hafnarfjarðarveginum er gert ráð fyrir samgöngumiðstöð og talsverðri byggð. Áslaug tekur fram að um sé að ræða grunn teikningar og engin ákvörðun hafi verið tekin um útlit húsanna á þessu stigi. Mynd/Batteríið

Í tillögunni er útfærslan í kringum Hafnarfjarðarveginn ákveðinn grunnur, en gert er ráð fyrir talsverðri uppbyggingu meðfram veginum. Áslaug segir að þar sé bæði horft til þess að byggja íbúðir og þjónustu- og verslunarhúsnæði. Segir hún að horft sé til þess að hverfið verði sjálfbært varðandi þjónustu og í góðum tengslum við núverandi miðbæ Garðabæjar, en það sé sú þróun sem sé að verða, þ.e. að íbúar sæki meira í að vera í heimabyggð, upp á vinnu, frístundir og þjónustu.

Vinningstillögunni hefur verið vísað til skipulagsnefndar bæjarins og segir Áslaug að væntanlega verði vinningshafinn ráðinn til að klára vinnuna við tillöguna. Segir hún að margar aðrar góðar tillögur hafi borist og líklega verði notast við einhverja þætti úr þeim, þótt vinningstillagan verði aðalgagnið.

Sjá má nánari upplýsingar um vinningstillöguna og aðrar tillögurnar sem bárust í samkeppnina hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert