Leita fram eftir kvöldi

Björgunarsveitarmenn að störfum í Sveinsgili.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Sveinsgili. Ljósmynd/Flugbjörgunarsveitin á Hellu

Leit að frönskum ferðamanni sem féll ofan í á í Sveinsgili í gær stendur enn yfir og verður haldið áfram fram eftir kvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisstjórn Landsbjargar verður líklega leitað til miðnættis og svo haldið áfram klukkan átta í fyrramálið.

Eins og fyrr hefur komið fram er talið að maðurinn hafi runnið undir snjó­dyngj­u yfir ánni og hafa störf björgunarmanna að mestu leyti snúist um að moka snjó. Alls hafa 218 manns tekið þátt í leit­inni fram að þessu.

Að sögn Margrétar Ýrar Sigurgeirsdóttur í svæðisstjórninni tekur á morgun við nýtt og ferskt fólk í leitinni en hún hefur eins og kunnugt er tekið töluvert á. Bendir hún á að erfitt sé að komast að leitarsvæðinu á bílum og þurfa björgunarmenn að ganga 30–40 mínútur frá bílum að staðnum. Þá tekur við stöðugur mokstur. 

Hún segir veður fínt á leitarsvæðinu en vatnavexti að aukast. Er töluvert betra veður í nótt þegar það var rigning og lítið skyggni en það hefur haldist þurrt að mestu í dag.

Björgunarsveitarmenn á vettvangi við Sveinsgil. Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina.
Björgunarsveitarmenn á vettvangi við Sveinsgil. Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert