Formföst embættistaka Guðna

Guðni Th. Jóhannesson tekur við embætti forseta Íslands 1. ágúst.
Guðni Th. Jóhannesson tekur við embætti forseta Íslands 1. ágúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson tekur formlega við embætti forseta Íslands 1. ágúst næstkomandi. Að sögn Ágústs Geirs Ágústssonar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, verður athöfnin með hefðbundnu sniði en slíkar athafnir fara fram í upphafi hvers kjörtímabils forseta, eða á fjögurra ára fresti.

Athöfnin er ekki frábrugðin þótt nú sé nýr forseti settur í embættið tuttugu árum eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tók við af Vigdísi Finnbogadóttur.

„Þetta er formföst athöfn sem hefur í öllum aðalatriðum haldið sér frá lýðveldisstofnun,“ segir Ágúst Geir.  

Ólafur er að ljúka sínu fimmta kjörtímabili en Guðni hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að sitja lengur en þrjú kjörtímabil, eða í tólf ár.

Athöfnin hefst með helgistund í Dómkirkjunni.
Athöfnin hefst með helgistund í Dómkirkjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drengskaparheit unnið

Athöfnin hefst með helgistund í Dómkirkjunni, sem er útvarpað beint í Ríkisútvarpinu. Eftir hana tekur við hin eiginlega innsetningarathöfn í Alþingishúsinu sem hefst um klukkan 16.00 og er sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þar er drengskaparheit unnið og kjörbréf afhent.
 
Handhafar forsetavaldsins, eða forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar Íslands, annast athöfnina og er það Hæstiréttur sem gefur út kjörbréfið sem staðfestir niðurstöðu forsetakosninganna sem fóru fram í síðasta mánuði.
 
Öllum alþingismönnum er meðal annarra boðið til athafnarinnar. Sendiherrar erlendra ríkja verða einnig viðstaddir.

Guðni mun veifa til almennings af svölum Alþingishússins að athöfninni …
Guðni mun veifa til almennings af svölum Alþingishússins að athöfninni lokinni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Minnist fósturjarðarinnar  

Að embættistökunni lokinni stígur forsetinn fram á svalir Alþingishússins ásamt forsetafrú og minnist fósturjarðarinnar. Fólk er boðið velkomið á Austurvöll til að fagna nýjum forseta. Að því loknu ávarpar forsetinn þjóðina og viðstadda í þingsal. Gjallarhorn verða umhverfis Alþingishúsið og Dómkirkjuna þannig að þeir sem eru fyrir utan heyri það sem fram fer.
 
Reiknað er með því að athöfninni í Alþingishúsinu ljúki um sexleytið og að henni lokinni mun forsetinn halda áleiðis til Bessastaða ásamt fjölskyldu sinni.

Guðni Th. Jóhannesson flytur með fjölskyldu sinni á Bessastaðir á …
Guðni Th. Jóhannesson flytur með fjölskyldu sinni á Bessastaðir á næstunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrstu embættisverk skýrast í ágúst

Samkvæmt upplýsingum frá forsetaritara er unnið að því þessa dagana að Guðni og fjölskylda hans flytji á Bessastaði og fer hún þangað inn þegar aðstæður leyfa.

Búist er við því að fyrstu embættisverk Guðna sem forseta Íslands muni skýrast á fyrstu dögum ágústmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert