HA vill sérstakt fræðasetur í lögreglufræðum

Háskólinn á Akureyri vill koma á fót sérstöku fræðasetri í …
Háskólinn á Akureyri vill koma á fót sérstöku fræðasetri í lögreglufræðum. Ljósmynd/Háskólinn á Akureyri

Háskólinn á Akureyri (HA) hefur tilkynnt að skólinn ætli að taka þátt í útboði vegna færslu lögreglunáms yfir á háskólastig. Verið sé að ljúka vinnu við metnaðarfulla þátttökuyfirlýsingu fyrir nám í lögreglufræðum á háskólastigi sem skilað verði inn til Ríkiskaupa á morgun, 22. júlí.

„Háskólinn á Akureyri er sérstaklega vel til þess fallinn að hýsa lögreglunám á háskólastigi í framtíðinni,“ er haft eftir Eyjólfi Guðmundssyni, rektor HA, í fréttatilkynningunni.

Sérstök nefnd innan skólans hefur undanfarnar vikur unnið að mótun ramma utan um þetta nýja nám.

Í yfirlýsingunni er gert ráð fyrir að í boði verði bæði sveigjanlegt nám þar sem nemendur geta valið á milli þess að stunda staðarnám eða fjarnám. Verklegi hluti námsins verður síðan þróaður í nánu samstarfi við Ríkislögreglustjóra og Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSSL).

 Í yfirlýsingu Háskólans á Akureyri er gert ráð fyrir 120 eininga tveggja ára starfstengdu diplómanámi en að einnig verði hægt að ljúka BA námi í lögreglufræðum til 180 eininga. Jafnframt er gert ráð fyrir sérsniðnu námskeiði fyrir lögreglumenn sem taka að sér verklega þjálfun nemenda, svokallaða handleiðara. Í tillögum HA er gert ráð nýju fræðasetri í lögreglufræði þar sem byggja á upp rannsóknir í lögreglufræðum en rannsóknir á því sviði hafa hingað til verið af skornum skammti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert