Loksins rekavottur á Ströndum

Búið er að binda drumbinn við traktor en beðið eftir …
Búið er að binda drumbinn við traktor en beðið eftir flóðinu svo hægt sé að kippa honum á land.

Lítinn sem engan rekavið hefur rekið á fjörur Árneshrepps á Ströndum síðustu árin en nú virðist ætla að verða breyting á.

Jón Guðbjörn Guðjónsson sendi mbl.is línu þar sem hann segir að loksins sjáist þar rekavottur.

„Í þessum hægu norðlægu vindáttum sem ríkjandi hafa verið í mánuðinum hefur verið að reka inn smávegis af við. Eina sæmilega spýtu rak í gær í svonefndum Krók hér í Litlu-Ávík, sem er rétt norðaustan við fjárhúsin,“ skrifar Jón.

„Spýtan er svona tæpir átta metrar að lengd, eða rúmlega þrjár stauralengdir, og um 38 til 40 cm í þvermál. Nú er beðið eftir flæði svo betra sé að draga spýtuna upp á land, því hún er í stórgrýti.“

Jón segir varla eldiviðarsprek búið að reka á fjörur á þessum slóðum síðastliðin misseri. Áður hafi verið nokkuð mikið um væna drumba og hugsanlega hafi það verið hafís sem ýtti timbrinu í átt til Íslands. Kveðst hann vona að þetta sé upphafið að frekari reka enda nýtist viðurinn vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert