Framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu ógilt

Fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 á að liggja á milli Hafnarfjarðar og …
Fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 á að liggja á milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. mbl.is//Kristinn

Héraðsdómur Reykjaness felldi á föstudag úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið Vogar gaf út til Landsnets vegna Suðurnesjalínu 2.

Framkvæmdaleyfið var gefið út 22. apríl í fyrra en samkvæmt því var Landsneti heimilt að hefja framkvæmdir við að leggja Suðurnesjalínu 2.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að forsendur dómsins hafi komið fyrirtækinu á óvart. Er nú verið að fara yfir dóminn og meta hvort ástæða sé til þess að áfrýja honum til Hæstaréttar.

Tekið er fram að dómurinn hafi ekki áhrif á vinnu við Suðurnesjalínu 2 þar sem framkvæmdir hafa nú þegar verið settar á bið.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í maímánuði að eignanám sem Landsnet gerði á landi á Reykjanesi vegna Suðurnesjalínu væri ólögmætt.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá því á föstudag kemur meðal annars fram að Landsneti, sem væntanlegum framkvæmdaaðila, hafi borið samkvæmt lögum að láta fara fram umhverfismat áætlana þeirrar framkvæmdar sem var í bígerð og kynna hana almenningi og viðkomandi stjórnvöldum.

Ekki hafi verið um valkvætt mat að ræða, heldur sé sú skylda lögð á framkvæmdaaðila að láta umrætt mat áætlana fara fram og gefa síðan almenningi sex vikna frest til að kynna sér tillöguna og umhverfisskýrsluna og koma á framfæri athugasemdum sínum áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi stjórnvaldi.

Sniðgekk skyldu sína

Að auki bar framkvæmdaaðila að senda matsgerð sína til Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og hlutaðeigandi sveitarfélags, en svo var ekki gert.

Telur dómurinn að með því að sniðganga þessa skyldu sína, þrátt fyrir að umhverfismat framkvæmda hafi síðar verið samþykkt af Skipulagsstofnun, hafi forsenda fyrir áframhaldandi aðgerðum verið brostin og útgefið framkvæmdarleyfi verið byggt á ófullnægjandi gögnum. Hafi lögmætisreglunni því ekki verið fylgt við útgáfu framkvæmdarleyfisins sem er íþyngjandi ákvörðun stjórnvalds gagnvart landeigendum. Sé sniðganga laganna heimiluð verður tilgangur þeirra að engu hafður.

Af þessum sökum beri að ógilda umrætt framkvæmdarleyfi.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness        

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert