Katrín: „Maður vill aldrei að þetta klárist“

Katrín Tanja Davíðsdóttir er hraustasta kona heims.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er hraustasta kona heims. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

Líkt og þekkt er orðið varði Katrín Tanja Davíðsdóttir titilinn hraustasta kona heims á heimsleikunum í crossfit sem lauk í gærkvöld. Líkt og gefur að skilja er hún virkilega ánægð með árangurinn og segist enn þá vera að átta sig á því að hafa sigrað. Hún fær að launum töluvert verðlaunafé en byssan umdeilda, sem átti að vera hluti verðlaunanna, fellur þó ekki í hennar hlut.

Ótrúleg tilfinning

„Hún er náttúrlega bara ótrúleg, þetta er náttúrlega ekki alveg raunverulegt enn þá finnst mér, þetta leið svo hratt og svo ótrúlega gaman allan tímann,“ segir Katrín Tanja í samtali við mbl.is. „Maður vill aldrei að þetta klárist,“ en Katrín naut sín vel alla keppnina.

„Þannig þetta er svona skrítið að þetta sé bara búið,“ segir Katrín, en hún telur að líklega muni það taka sig einhvern tíma að ná sér aftur niður á jörðina og átta sig á sigrinum.

Þær Katrín Tanja og Annie Mist eru einu konurnar sem hafa sigrað oftar en einu sinni í tíu ára sögu heimsleikanna en allt fram að síðustu grein var keppnin mjög spennandi. Hin ástralska Tia-ClairToomey gaf Katrínu ekkert eftir og þegar síðustu grein var lokið var ekki orðið endanlega ljóst hvor þeirra stæði uppi sem sigurvegari.

Tvær íslenskar á palli. Katrín Tanja hafnaði í fyrsta sæti …
Tvær íslenskar á palli. Katrín Tanja hafnaði í fyrsta sæti annað árið í röð og Ragnheiður Sara í því þriðja. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

„Ég vissi ekkert hvað var langt á milli okkar eða hvernig stigagjöfin hefði farið, þannig að ég vissi ekki neitt hvernig þetta hefði farið fyrr en að bara úrslitin voru tilkynnt,“ segir Katrín. Henni fannst líða óralangur tími á meðan beðið var eftir að úrslit yrðu tilkynnt en tilfinningarnar leyndu sér ekki þegar úrslit voru gerð kunn.  

Katrín hneig niður og brast í grát þegar tilkynnt var um úrslitin og ljóst var að hún væri áfram hraustasta kona heims. Hún var þó ekki lengi á fætur aftur og veifaði með þakklæti til áhorfenda og tók við hamingjuóskum viðstaddra, tárvot en með bros á vör.

Margir persónulegir sigrar

„Mér finnst samt einhvern veginn að besta tilfinningin væri ekki þessi tilfinning að vinna aftur,“ segir Katrín, heldur hafi öll vikan verið það sem skipti máli. „Í hvert einasta skipti sem ég kom út af vellinum þá var ég svo glöð, og svo margir persónulegir sigrar í hverju eina og einasta WOD-i.“

Hún kveðst ánægð með árangur sinn í öllum greinum en segir að erfiðast hafi verið að fletta blaðsíðunni við ef eitthvað gekk ekki alveg að óskum. Henni tókst að halda góðum fókus alla keppnina en þó það hafi einstaka sinnum reynst erfitt var hún vel undirbúin og mætti einbeitt í næstu keppnisgrein. „Besta sem ég get gert er að fókusera á næsta WOD og gefa allt sem ég get í það,“ segir Katrín, og það gekk.

Tilfinningarnar leyndu sér ekki þegar úrslit voru kunn.
Tilfinningarnar leyndu sér ekki þegar úrslit voru kunn. Ljósmynd/Berglind Sigmunds

„Maður í rauninni stjórnar áreitinu sjálfur,“ segir Katrín, sem var vel undir það búin að í ár yrði líklega meiri athygli á henni heldur en í fyrra. „Fyrir helgina er ég alveg búin að undirbúa hvernig, plana hvernig ég geti minnkað allt áreiti,“ en hún lokaði til að mynda nánast alveg fyrir símann að því undanskildu að svara skilaboðum frá pabba sínum.

Spurð hvort hún hafi haft það á tilfinningunni að hún kæmi til með að vinna aftur, segist hún hafa vitað að það væri góður möguleiki. „En ég er ekkert að hugsa um úrslitin. Ég var að hugsa um eitt WOD í einu og næsta sem ég var að fara að gera.“

Fær ekki byssuna

Katrín ætlar að verja tíma með fjölskyldunni dagana að móti loknu og ætlar að kíkja heim til Íslands í sumar. Katrín hefur verið búsett í Boston að undanförnu þar sem hún æfir undir leiðsögn þjálfara síns. Nú ætlar hún að taka sér smá tíma til að njóta áður en lengra er haldið. „Svo erum við komin með plan, bara halda áfram og verða betri.“

„Ég fékk ekki byssuna,“ segir Katrín, spurð um hinn umdeilda verðlaunagrip sem greint var frá að yrði hluti verðlaunanna fyrir sigurvegara keppninnar. „Stelpan sem var hæst í Ameríku fékk byssuna,“ segir Katrín, en byssan sem er af gerðinni Glock, fellur því í hlut Kari Pearce sem hafnaði í fimmta sæti. Katrín segir það ekki vera vonbrigði þótt byssan sé ekki hennar.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá síðustu keppnisgreinina og stundina þegar úrslit voru gerð kunn. Riðill Katrínar Tönju og Ragnheiðar Söru hefst á 50. mínútu myndbandsins og úrslitin þegar ein klukkustund og átta mínútur eru liðnar á myndbandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert