Kynferðisbrotamenn spili ekki Pokémon Go

Pokémonar eru ekki jafnvelkomnir alls staðar. Þessar stúlkur veiddu pokémona …
Pokémonar eru ekki jafnvelkomnir alls staðar. Þessar stúlkur veiddu pokémona í miðborg Hong Kong, en yfirvöld í New York vilja nú banna dæmdum kynferðisbrotamönnum að spila leikinn. AFP

Yfirvöld í New York-ríki ætla að banna skráðum kynferðisbrotamönnum að spila farsímaleikinn vinsæla Pokémon Go á meðan þeir eru enn á skilorði. Fréttavefur BBC segir bannið eiga að ná til 3.000 einstaklinga sem nú eru á skilorði, sem og til þeirra sem sæta munu skilorði síðar.

Banninu er ætlað að vernda þau börn sem spila leikinn og eru á ferð með farsíma sína í leit að pókemonum utandyra. Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, sagði nýja tæknimöguleika ekki mega verða að „nýjum möguleikum fyrir hættulega kynferðisbrotamenn“. „Okkar fyrsta forgangsmál er að vernda börn New York,“ sagði Cuomo.

Verði frumvarpið að lögum mun öllum þeim kynferðisbrotamönnum sem látnir verða lausir úr fangelsi verða bannað að spila Pokémon Go. Lög ríkisins kveða þegar á um að kynferðisbrotamenn verði að gefa upp heimilisfang og netfang sitt, auk þess að fá nafn sitt á opinbera skrá yfir kynferðisbrotamenn.

Cuomo hefur þegar sent Niantic, hönnuðum leikjarins, bréf þar sem hann óskar eftir aðstoð við að koma í veg fyrir að dæmdir kynferðisbrotamenn geti spilað Pokémon Go. BBC segir hann hafa stungið upp á að Niantic keyri saman upplýsingar um spilara leikjarins og skrá ríkisins yfir kynferðisbrotamenn.

Þá hefur öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Klein stungið upp á því við Niantic að fyrirtækið láti pokémona ekki gera vart við sig í innan við 30 metra fjarlægð frá heimilum kynferðisbrotamanna.

Frá því leikurinn kom fyrst á markað fyrr í mánuðinum hafa borist fregnir af nokkrum stöðum þar sem pokémonar eru ekki velkomnir, m.a. helfararsafninu í Washington.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert