Á erfitt með að trúa frásögninni til fulls

Ómar Ragnarsson segist sjálfur eiga erfitt með að trúa frásögn …
Ómar Ragnarsson segist sjálfur eiga erfitt með að trúa frásögn fólksins til fulls, en hann telji hana þó trúanlegri en niðurstöðu lögreglu á sínum tíma. mbl.is/Rax

„Ég óttaðist helst að vera gagnrýndur fyrir að hrófla við máli sem helst ætti að liggja kyrrt.  Núna kemur mér á óvart að vera gagnrýndur fyrir að gera einmitt ekki það strax 2002, sem ég gat bara alls ekki gert,“ segir Ómar Ragnarsson sem sendi fyrir helgi frá sér bókina Hyldýpið, sem fjallar um möguleg endalok Geirfinns Einarssonar.

Hvorki lögregla né lögfræðingar sakborninga hafa enn haft samband við Ómar vegna þeirrar frásagnar af afdrifum Geirfinns sem þar er rakin, en sjálfur kveðst hann hafa haft samband við Katrínu Oddsdóttur lögmann sem unnið hefur fyrir sakborninga í Geirfinnsmálinu fyrir útkomu bókarinnar og látið hana vita af henni.

Ómar hefur hlotið töluverða gagnrýni fyrir bókina, sem hann segir byggja á frásögn karls og konu sem hafi greint sér frá því árið 2002 að Geirfinnur hafi látist er maðurinn ók á hann á Keflavíkurvegi.

Spurður hvort hann trúi frásögn fólksins segir hann: „Ég á erfitt með að trúa henni til fulls, því miður. Ég viðurkenni það alveg, en mér finnst hún samt trúverðugri en hin,“ segir hann og kveðst hafa verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að fram kæmi að andlát Geirfinns hafi borið að með öðrum hætti en líkum var leitt í að rannsókn málsins á sínum tíma.  

Geirfinnur Einarsson. Miklar vangaveltur hafa verið upp um hvað hafi …
Geirfinnur Einarsson. Miklar vangaveltur hafa verið upp um hvað hafi orðið af Geirfinni. Í bók Ómars er Geirfinnur sagður hafa orðið fyrir bíl á Keflavíkurvegi og líkinu síðan varpað ofan í gjótu. Ljósmynd/Aðsend

Saga sem þagað var yfir í 40 ár

Síðast í gær hafi maður haft samband við sig sem hafi sagt sér sögu sem hann hafi þagað yfir í 40 ár. Ómar segist ekki geta greint nánar frá samtali þeirra, en viðurkennir þó að um Geirfinnsmálið sé að ræða, að öðru leyti sé hann bundinn trúnaði. Hann voni þó að maðurinn greini sjálfur frá málinu.

„Í rannsókninni er augljóst að menn fara í góðkunningja lögreglunnar,“ segir Ómar. Slíkt sé vel þekkt og hafi í raun gerst aftur núna, þegar farið var að vinna í málinu á ný. „Núna eftir öll þessi ár, þegar það er farið að yfirheyra einhvern þá eru það aftur góðkunningjar lögreglunnar. Mönnum dettur ekkert í hug annað en einhverjir smákrimmar, eða eins og núna síðast stór krimmi. Mönnum dettur ekki í hug að neinn geti verið tengdur þessu máli nema hann sé inni í undirheimunum. Það er stóri gallinn.“

Að sögn Ómars skrifaði hann strax niður frásögn fólksins sem hafi sagt sér hana í trúnaði. Maðurinn hafi síðan haft samband við sig 2004 og þá hafi konan verið látin. Hann kveðst hins vegar ekki þekkja nöfn þeirra. „Ég man ekki hvað hann hét og er ekki einu sinni viss um að ég hafi nokkurn tímann vitað það,“ segir Ómar og blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort hann hafi mögulega rekist á nafn konunnar í andlátstilkynningum eða minningargreinum tengdum andláti hennar, en Ómar segir svo ekki vera. Hann hafi heldur ekki munað eftir að spyrja manninn nafns er hann hringdi, heldur hafi hann bara hlustað.

„Hann gaf leyfi fyrir birtingu upplýsinganna ef hann hefði ekki aftur samband innan tíu ára eða svo,“ segir Ómar og kveðst ekki hafa heyrt í manninum síðan. „Ég hlustaði á það sem hann hafði að segja efnislega og vissi að hann myndi treysta mér fyrir þessu.“

Sjálfur hefur hann ekki reynt að hafa uppi á manninum og segir að það sé regla hjá sér að vitna ekki í einkasamtöl án heimildar viðkomandi.  Ómar segist ekki heldur hafa heyrt í manninum nú eftir að málið komst í hámæli. „Hugsanlega ætlar hann að bíða og sjá, hugsanlega er hann ekki enn á lífi og svo mögulega, ef  endurupptökunefnd tekur málið upp, þá hefur hann kannski enga ástæðu til að gefa sig fram.“

Alltaf álitamál hvort um hylmingu sé að ræða

Spurður hvort ekki megi segja að hann sé að hylma yfir með brotamanni, segist hann rólegur yfir slíkum ásökunum. „Þetta er spurning sem kemur alltaf upp, þegar blaðamenn lenda í svona.  Þetta er alltaf álitamál, en af því að ég get ekki sannað þessa frásögn mannsins og af því að ég verð að halda þeim möguleika opnum að þetta hafi bara verið ímyndun, þá er ekki um venjulega yfirhylmingu að ræða. Ég er því rólegur yfir þessu,“ segir Ómar. Leynd heimildarmanna sé enn í fulli gildi, þar sem hann starfi enn sem fjölmiðlamaður þó að hann sé hvergi fastráðinn.

„Aðallega bjóst ég við gagnrýni fyrir að vera að róta þessu upp og núna var eiginlega fyrsta tækifærið að vera ekki sakaður um það, því það er búið að vera að róta í þessu fram og til baka í fjölmiðlum í sumar og málið nú komið á það stig að menn fari að huga að því að eitthvað annað kunni að hafa gerist.“

Ómar hefur greint frá því að hann hafi ætlað að gefa frásögnina út 2004, en ekki orðið af því m.a. vegna gagnrýni útgefanda sem hafi sagt hana of efnisrýra.  Þá hafi hann rætt við blaðamann, sem lofaði að lesa handrit bókarinnar. Hann segist ekki vera viss um að blaðamaðurinn hafi fengið handritið í hendur. „Þetta var svo ófullkomið. Ég veit ekki hvort hann las það yfir, en ég get vel ímyndað mér að hann myndi vilja koma fram og staðfesta að ég var með þetta handrit í höndunum.“

Handritið týndist síðan að hans sögn og fannst ekki á ný fyrr en í flutningum 2013, ári síðar fer endurupptökunefnd að ræða hvort Geirfinnsmálið skuli tekið upp og liggur því beint við að spyrja Ómar hvort ekki hafi hvarflað að honum að koma þessari frásögn til nefndarinnar á þeim tíma. Ómar segir svo ekki vera. „Annaðhvort heldur blaðamaður trúnað sinn eða bara ekki og við vitum um blaðamenn sem hafa búið sig undir að fara í fangelsi fyrir að gefa ekki upp heimildarmenn. Ég er með langan lista af fólki sem ég held trúnað við.“

Líður best gagnvart sakborningunum

„Ég held satt að segja að þetta fólk hafi leitað til mín 2002 af því að þá var ég búinn að vera á vettvangi allra mestu hamfara og harmleikja Íslandssögunnar frá 1972 og það hefur væntanlega kynnst því að mitt aðalboðorð er að sýna þessu fólki tillitsemi.“

Spurður hvort hann brjóti ekki sé siðferðilega gegn þeim sem sátu inni fyrir morðið á Geirfinni með því að greina ekki frá málinu fyrr, segist Ómar ekki hafa áhyggjur af því. „Mér líður best gagnvart þessum sakborningum því þeir voru að mínu mati sakfelldir ólöglega og á ófullnægjandi hátt og ég tel að þau eigi að fá uppreist æru og vera úrskurðuð sýkn saka. Gagnvart þeim er ég miklu rólegri, en ef ég hefði fengið framburð sem hefði tengst þeim.

Það eina sem ég vonast til að þessi bók geri er að víkka sjóndeildarhringinn og betur verði farið yfir málið og farið með það út úr þessum rannsóknarhring, þannig að við sjáum að málið er enn þá þannig óupplýst.“

Fá mál hafa vakið jafnmikla athygli hér á landi og …
Fá mál hafa vakið jafnmikla athygli hér á landi og Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Ómar kveðst mest hafa óttast gagnrýni við að hrófla við einhverju sem ætti að liggja kyrrt, ekki fyrir að fara ekki fyrr af stað.

Brot úr bókinni Hyldýpið, þar sem segir frá því er ekið var á Geirfinn, er hér birt að neðan með góðfúslegu leyfi höfundar:

    Ég hafði ekið langleiðina að Straumi þegar ég sá hvítan, kyrrstæðan frambyggðan sendibíl á vegarbrúninni og minntist þess þá að hafa mætt þessum bíl mitt á milli Straums og Kúagerðis og hann hafði þá verið á leið til Hafnarfjarðar.

    Afturdyrnar voru opnar þar sem bíllinn stóð kyrr úti á kantinum og maður með kaðal í hendi gekk fram með hægri hlið bílsins. 

    Það virtist svo sem einhver bilun hefði orðið.

    Ég hægði ferðina og renndi jeppanum þétt upp að vinstri hlið sendibílsins og stansaði svo að ég gat horft út um hægri framgluggann á mínum bíl inn um bílstjóraglugga sendibílsins.

    Þar sat maður með sérkennileg, skyggð gleraugu, og við renndum samtímis niður rúðunum, sem stóðust á, svo að við gátum talað saman í gegnum þá [gluggana] án þess að fara út úr bílunum.

    „Er eitthvað að?“ spurði ég.

    „Já, við þurftum að stoppa og þá drapst óvart á bílnum og við getum ekki startað honum, vegna rafmagnsleysis.  

    Geturðu kippt í okkur?“

    „Alveg sjálfsagt mál,“ svaraði ég. „Maður er nú á tækinu til þess,“ bætti ég við og ekki laust við yfirlæti í tóninum yfir því að vera á svo góðum bíl.

    Ég ók af stað og áfram, fram fyrir hornið á sendibílnum.

    Þá gerðist það.

    Ég man það eins og það hefði gerst í gær, þótt ég sæi það aldrei almennilega, fann bara að ég ók yfir eitthvað, líkt og þúfu.

    Varð þó var við eins konar skugga, sem kom fram undan horninu á sendibílnum sekúndubroti áður, og heyrði manninn með skyggðu gleraugun hrópa upp yfir sig og öskur í öðrum manni, sem stóð fyrir framan sendibílinn.

    Ég steig eldsnöggt á bremsuna og drap á bílnum.

    Guð minn almáttugur! Hvað hafði gerst?

    „Ertu brjálaður, maður! Þú hefur keyrt yfir hann!“

    Bílstjórinn á sendibílnum æpti þetta um leið og hann ýtti upp hurðinni hjá sér svo að hún small utan í bílinn hjá mér, því það var mjótt bil á milli bílanna.

    Hjartað stansaði næstum í brjósti mér, svo mikið brá mér.

    Ég stökk út og æddi fram fyrir bílinn. Maðurinn, sem ég hafði séð fyrir framan sendibílinn eftir að ég stansaði, var kominn inn á milli bílanna til móts við bílstjórann á sendibílnum.

    Þeir beygðu sig báðir niður að þriðja manninum, sem lá með fæturna við framhornið á sendibílnum en háls og höfuð undir jeppanum mínum aftan við framhjólið, þétt upp við það.

    Hann hafði verið skugginn sem ég sá sekúndubroti áður en ég ók yfir ójöfnuna, sem augljóslega hafði verið hálsinn eða jafnvel höfuðið á honum, því að andlitið á honum var alblóðugt svo að það var óþekkjanlegt!

    Þetta var hryllilegt. Mig sundlaði og gat mig hvergi hrært.

    Ég hafði ekið yfir mann! Áreiðanlega stórslasað hann! 

    Nei, enn verra, drepið hann!

    Mennirnir tveir krupu yfir þann sem lá og annar þeirra hrópaði:

    „Það verður að koma honum strax til læknis! Fljótt!“

    Þeir tóku undir hinn liggjandi mann, sem var alveg líflaus, færðu hann aftur fyrir dyrnar á jeppanum mínum og opnuðu þær síðan svo að hurðin skyggði að mestu á það sem fram fór.

    Ég stóð enn sem steini lostinn og gat hvorki hreyft legg né lið af skelfingu.

    Mennirnir tveir lyftu máttvana líkama hins slasaða manns og settu hann upp í hægra framsætið á jeppanum og skelltu síðan hurðinni.

    „Þú verður að fara með hann!“ skipaði sá þeirra sem setið hafði í bílstjórasætinu og var með þessi undarlegu, hálfdökku sólgleraugu.

    „Ég?“ Ég stóð enn sem lamaður og vissi hvorki í þennan heim né annan.

    „Já, þú!“ skipaði maðurinn. „Okkar bíll fer ekki í gang.“    

    „Það er um líf og dauða að tefla! Flýttu þér! Ætlarðu að láta manninn deyja hér?!“

    Ég gat loksins hreyft mig, þótt ég gæti ekki hugsað neitt af viti, heldur hlýddi manninum eins og í blindni og flýtti mér að setjast undir stýri á jeppanum.

    Mér var ljóst að þeir hefðu átt að láta manninn liggja kyrran en úr því að þeir voru hvort eð er búnir að færa hann úr stað og setja hann í sætið hjá mér var varla um annað að ræða en að aka af stað með hann.

    Maðurinn með gleraugun stóð enn uppi við hægri dyrnar á jeppanum og báðar rúðurnar voru enn niðri þannig að ég gat kallað til hans: „Ætlið þið ekki að koma með?“

    „Vertu ekki að tefja!“ kallaði maðurinn á móti. „Það varst þú sem keyrðir yfir hann! Þetta er þitt mál en ekki okkar! Farðu! Flýttu þér!

    Ég veit að þú finnur rétta staðinn til að fara á! Það er bara um einn að ræða, þú veist!“

    Um leið og hann sagði þetta, opnaði hann dyrnar til hálfs, studdi við höfuð slasaða mannsins með annarri hendinni en renndi rúðunni upp með hinni og lokaði svo dyrunum aftur. Höfuð hins slasaða hallaðist yfir að rúðunni og nam staðar við hana.

    Ég horfði með hryllingi á hvernig hann lá þarna á ská upp að glugganum með alblóðugt, lemstrað andlitið. Hann gaf ekkert hljóð frá sér og var annaðhvort dauður eða í það minnsta meðvitundarlaus.

    Maðurinn með skyggðu gleraugun snaraðist upp í sendibílinn og bandaði skipandi til mín með hendinni:   

    „Farðu! Farðu! Þú veist hvar staðurinn er!”

    Ég var í uppnámi og rusli, svo óglatt að ég kúgaðist og í algeru sjokki, en ók af stað eins og í leiðslu og fór greitt til að byrja með um leið og ég reyndi að hugsa eitthvað af viti.

    Þegar ég var að koma að álverinu þurfti ég að fara fram úr bíl og sveigja aftur inn á hægri vegarhelming við að mæta bíl, sem kom á móti.

    Við það réttist hinn slasaði maður upp í sætinu við hliðina á mér og sú sjón, sem blasti við mér var svo skelfileg að fingur mínir nötra þegar ég rifja þetta upp.

    Eini bletturinn, sem blóð hafði ekki runnið yfir, var vinstri kjálkinn og hálsinn, og ég sá húðlitinn renna þar niður líkt og verið væri að hella rauðlitum vökva úr flösku og eftir stæði nábleikt innihald inni í glerinu.

    Um leið valt hann yfir í kjöltu mína svo að ég var næstum búinn að missa stjórn á bílnum.

    Ég barðist við hinn deyjandi mann sem var kominn yfir í fang mér og tókst að ýta honum til baka, en þá datt hann fram fyrir sig svo að höfuðið skall í mælaborðið.

    Það kýldist aftur á við svo að það var eins og það ætlaði af búknum og þannig þrýstist maðurinn niður á gólfið á bílnum með höfuðið sveigt aftur og út á hlið!

    Þá varð mér ljóst að hann var steindauður; líklegast hafði hann hálsbrotnað þegar ég ók yfir hann án þess þó að hryggurinn kubbaðist alveg sundur, en hálsinn síðan brotnað alveg í tvennt við það að höfuðið skall á mælaborðinu.

    Ég hristist og skalf af viðbjóði og sjokki um leið og ég hægði á mér og fór að aka á eðlilegum hraða.

    Hinn kaldi veruleiki var að byrja að renna upp fyrir mér:

    Ég hafði tapað kapphlaupinu við að bjarga lífi þessa manns sem ég hafði ekið yfir.

    Reyndar höfðu samferðamenn hans hagað sér eins og asnar þegar þeir drösluðu honum inn í bílinn hjá mér í stað þess að hrófla ekki við honum og kalla heldur á sjúkrabíl. Og ég hafði hlýtt þessum vitleysingum í blindni!

    Hvað um það, þetta var búið og gert og héðan af gat ekkert vakið þennan samferðamann minn til lífsins aftur.

    Nú var kominn tími til að reyna að hugsa eitthvað af viti áður en áfram væri haldið.

    Ég beygði til hægri inn á Krísuvíkurveg.

    Bíllinn, sem ég hafði ekið fram úr, hélt áfram. Enginn hafði enn orðið vitni að því sem gerst hafði nema mennirnir tveir á sendibílnum.

    Enginn hafði ekið fram hjá okkur meðan bílar okkar stóðu á slysstaðnum. Ég varð að hitta þá aftur. Þeir gátu borið vitni um það að þetta hafði verið óviljaverk.

    Hinn látni var eins og klessa fyrir neðan gluggalínu bílsins og þess vegna gat enginn séð hann né vitað af tilvist hans nema ég stansaði, þannig að ég gat ekið rakleiðis á slysstaðinn.

    Mér brá í brún þegar ég kom þangað.

    Sendibíllinn var horfinn. Hann var gersamlega gufaður upp. Honum hlaut að hafa verið snúið við í suðurátt.

    Það þýddi að mennirnir voru hvorki á leið til lögreglunnar í Hafnarfirði né sjúkrahússins þar.

    „Þetta er þitt mál, ekki okkar!“ hafði bílstjórinn hrópað.

 

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert