Ræddi Passíusálmana á Hólahátíð

Guðni ávarpaði gesti á Hólahátíð í dag.
Guðni ávarpaði gesti á Hólahátíð í dag. Mynd/Forseti Íslands

„Skynsemi og tilfinningar, kirkja og almætti. Í embætti forseta Íslands ætla ég ekki að leggja fólki línur í trúmálum. Á mínum fræðimannsferli hef ég talið að efahyggja sé af hinu góða í heimi sagnfræðinnar, að hin eina rétta og endanlega útgáfa sögunnar verði aldrei samin.“ Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í ávarpi sínu á Hólahátíð í dag þar sem þess var minnst að 350 ár eru liðin frá því að Passíusálmarnir komu fyrst á prent.

Forsetinn fjallaði um skilning sagnfræðinga á kristnitöku og siðaskiptum á Íslandi og vék hann að kveðskap Hallgríms Péturssonar og áréttaði gildi mannúðar og kærleika í samfélaginu.

„Í aðdraganda nýliðins forsetakjörs kom staða mín utan þjóðkirkjunnar nokkuð til tals. Meðal annars gætti þess misskilnings að forseti Íslands væri sjálfkrafa sérstakur verndari hennar. Það er ofmælt þótt í 62. grein stjórnarskrárinnar segi að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Í næstu grein er trúfrelsi aftur á móti tryggt, að allir megi iðka trú sína í samræmi við eigin sannfæringu og litlu síðar segir að allir séu jafnir fyrir lögum án tillits til trúarbragða,“ sagði Guðni.

Frá Hólum í dag.
Frá Hólum í dag. Mynd/Forseti Íslands

Um skilning sagnfræðinga á siðaskiptunum og kristnitökunni sagði Guðni:

„Allt er breytingum háð. Undanfarin ár og áratugi hafa sagnfræðingar fog fornleifafræðingar endurskoðað alla sögu kristni og kirkju á Íslandi. Hin gamalkunna frásögn um kristnitökuna er vefengd, í það minnsta er aukið við hana og rökstutt að hinn nýi siður hafi borist til landsins og breiðst út með ýmsum hætti á löngu tímabili. Fornleifar geyma vísbendingar um torfkirkjur sem spruttu úr írskri og skoskri menningu og timburkirkjur sem rekja má til Engilsaxa og Norðurlanda. Kristnitaka á Íslandi var margþætt langtímaþróun, dulin útbreiðsla, háð tilviljunum samhliða beinu trúboð og sáttagjörð á Alþingi.“

„Á sama hátt segja fræðimenn um okkar daga að siðaskipti 16. aldar hafi ekki verið eins skörp og áður var gjarnan talið. dæmi hafa verið tekið af Guðnýju Stefánsdóttur, afasystur Jóns eldklerks Steingrímssonar. Sagt er að hjá henni hafi fléttast saman lútherskur rétttrúnaður samtímans og trúarhættir fyrri tíðar, úr kaþólsku og jafnvel norrænni vættatrú.“

Sjá ávarpið í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert