Er aðgerðin óskaúrræði ungs fólks?

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, segir að veruleg stefnubreyting hafi átt sér stað hjá hinu opinbera í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hún hafi dregið markvisst úr stuðningi í gegnum vaxta- og barnabætur og þess í stað ráðist í aðgerðir sem hafi nýst tekjuháum hvað best.

Þetta kom fram í máli Katrínar í umræðum á þingi í dag um frumvarp fjármálaráðherra um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu fyrir hádegi í dag.

Katrín sagði í sjálfu sér jákvætt að rætt væri á þingi um ráðstafanir til þess að styðja við ungt fólk á fasteignamarkaði. Hún nefndi að þrátt fyrir yfirlýsingar um annað hefði leiðréttingin svonefnda síst nýst ungu fólki og tekjulágum. Tekjuhæstu hópar landsins hefðu fengið tæp 30% af upphæð leiðréttingarinnar en þeir tekjulægstu aðeins í kringum 13%.

Því væri ekki nema von að spurt væri hver áhrifin af nýkynntri aðgerð ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum yrði á ólíka tekjuhópa.

Þarf engan geimvísindamann

Katrín sagði að það lægi í augum uppi að það var ágreiningur á þingi um grundvallarhugsunina á bak við það að stjórnvöld veittu skattaafslátt af opinberu fé sem miðaðist í raun við tekjur hvers og eins. Það þýddi nefnilega að þeir sem hafa mestu tekjurnar gætu lagt mest til hliðar og fengju þar af leiðandi mesta skattaafsláttinn.

„Það þarf engan geimvísindamann til þess að reikna það út,“ sagði Katrín.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra kynntu úrræði ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum fyrr í vikunni. mbl.is/Þórður

Hún spurði meðal annars hvort aðgerðin myndi gagnast þeim hópi sem henni væri ætlað að gagnast. Miðgildi ráðstöfunartekna fólks á aldrinum 25 til 34 ára væri undir 300 þúsund krónum. „Hversu langan tíma mun það taka einstakling með þessar tekjur að safna sér upp í útborgun í íbúð með þessari aðgerð?“ spurði Katrín. „Og mun þessi hópur yfir höfuð telja sig eiga efni á því að leggja fyrir í séreignarsparnað?“

Ungt fólk vill hreyfanleika

Hún benti jafnframt á að ungt fólk í dag legði ekki síður áherslu á að fyrir hendi væri viðunandi framboð af leiguhúsnæði. „Því ungt fólk leggur miklu meira upp úr hreyfanleika í lífí sínu heldur en ungt fólk fyrir þrjátíu árum,“ sagði hún. Það vildi geta flutt annað og spreytt sig á nýjum tækifærum. Segja mætti að stefnumótun stjórnvalda síðustu ár hefði einmitt miðað að því að auka möguleika ungs fólks til þess að vera hreyfanlegt.

Vel þess virði væri að spyrja hvort aðgerð ríkisstjórnarinnar væri óskaúrræði ungs fólks. Eða er það kannski fremur að sækjsat eftir eðlilegum leigumarkaði. Katrín spurði einnig hvernig ungt fólk á leigumarkaði ætti að eiga efni á því að leggja út fyrir séreignarsparnað.

„Því í raun snýst þessi leið um að fólk leggi til af eigin tekjum, sem er ekki sérstaklega háar samkvæmt þeim gögnum sem við getum aflað okkur til þess ða safna fyrir útborgun á sama tíma og það er á óviðráðanlegum leigumarkaði, nema það búi enn þá í foreldrahúsum,“ sagði Katrín.

Ættu að jafna byrðarnar

Hún benti á að ríkisstjórnin hefði tekið mjög stefnumótandi ákvarðanir um að skerða vaxtabætur og draga þannig með markvissum hætti úr stuðningi við fjölskyldurnar í landinu. Alls næmi uppsöfnuð skerðing vaxta hátt í sextíu milljörðum króna á núvirði.

Á sama tíma hefði ríkisstjórnin ráðist í flatar aðgerðir, til dæmis leiðréttinguna, sem gögnuðust fyrst og fremst hinum tekjuhærri.

„Það er stór stefnubreyting að hið opinbera sé að nýta sameiginlega sjóði landsmanna til að styðja fyrst og fremst tekjuhærri hópana,“ sagði hún.

Stjórnvöld ættu þess í stað að nýta skattkerfið til þess að jafna byrðarnar, jafna hlut fólks. Hlutverk hins opinbera væri að tryggja öllum tækifæri og jafna aðstæður fólks sem væri í störfum sem gæfu af sér ólíkar tekjur en væru öll mikilvæg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert