Verði bæði sjúkra- og sjúklingahótel

Nálægð sjúkrahótelsins við Landspítalann við Hringbraut er talin opna nýja …
Nálægð sjúkrahótelsins við Landspítalann við Hringbraut er talin opna nýja möguleika til framþróunar í heilbrigðisþjónustu og bættri þjónustu við sjúklinga. mbl.is/Styrmir Kári

Rekstur sjúkrahótels við Hringbraut hefur jákvæð áhrif á starfsemi Landspítalans og heilbrigðiskerfið almennt. Er þetta mat starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að fjalla um rekstur nýs sjúkrahótels og leiðir til að efla þjónustu við þá sem þurfa á sjúkrahóteli að halda.

Hópurinn hefur skilað ráðherra greinargerð um rekstur sjúkrahótelsins þar sem lagt er til að tvenns konar gististarfsemi verði á hótelinu, sem verði þar með bæði sjúkrahótel og sjúklingahótel. Hótelið muni þó að stærstum hlut sinna síðarnefnda hlutverkinu, sem þarfnast hins vegar frekari skilgreininga við af hendi stjórnvalda.

Þjónusta sjúkrahótels sé ætluð þeim sem ekki eru innritaðir á Landspítala en þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar. Sjúklingahótel sinni hins vegar þörfum þeirra sjúklinga sem eru innritaðir á Landspítala, en þurfa ekki að vera á legudeild. Þetta geti t.d. verið sjúklingar sem eru í virkri meðferð en sækja dag- og göngudeildarþjónustu og þurfa jafnframt eftirlit og stuðning.

„Stærð og staðsetning hótelsins opnar nýja möguleika til framþróunar í heilbrigðisþjónustu og bættri þjónustu við sjúklinga þar sem aðstaða sjúklinga, endurhæfing og heimilislegt umhverfi hefur jákvæð áhrif á bata,“ segir í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Á hótelinu eiga að vera 75 herbergi, en til samanburðar hafa að jafnaði verið 25 herbergi í notkun á sjúkrahótelinu í Ármúla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert