Brýnt að setja lög um réttindi barna

„Foreldrar mega ekki gleyma að virða einkalíf barna sinna og …
„Foreldrar mega ekki gleyma að virða einkalíf barna sinna og fara varlega í að birta myndir á samfélagsmiðlum,“ segir Eydís. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er óalgengt að foreldrar birti myndir af börnum sínum á samfélagsmiðlum. Samfélagsmiðlar hafa þróast ört á skömmum tíma og hópurinn sem notar þá hefur sömuleiðis stækkað. „Foreldrar mega ekki gleyma að virða einkalíf barna sinna og fara varlega í að birta myndir eða opinbera upplýsingar um þau á samfélagsmiðlum. Þetta á sérstaklega við um viðkvæmar myndir eða upplýsingar. Að mínu mati má því færa góð og gild rök fyrir því að þörf sé á lagabreytingum til þess að auka réttindavernd barna og koma til móts við þennan hóp einstaklinga sem eru að jafnaði viðkvæmari og berskjaldaðri en þeir fullorðnu,“ segir Eydís Ýr Jónsdóttir, laganemi við lagadeild Háskóla Íslands. Þetta er meðal þess sem kemur fram í BA-ritgerð hennar, Friðhelgi einkalífs barna. Myndbirtingar og birting upplýsinga um börn á samfélagsmiðlum.

Ástæðan fyrir því að Eydís ákvað að skrifa um þetta efni er m.a. sú að hún hafði rekist á margar myndir af börnum á netinu sem hún myndi sjálf ekki kæra sig um að væru birtar af sér.

Biðja um leyfi barnsins fyrst

Börn njóta sömu mannréttinda og fullorðnir einstaklingar og eiga að njóta réttar sem slíkir. Réttarstaða barna er því sú sama og þeirra fullorðnu. Meiðyrðalöggjöfin tekur þ.a.l. einnig til barna. Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu nýtur verndar stjórnarskrárinnar en þar segir að allir skuli njóta friðhelgi um eigið einkalíf, heimili og fjölskyldu. Börn eru þar ekki undanskilin og eiga því að njóta friðar um eigið einkalíf eins og þeir fullorðnu. Í Barnasáttmálanum er fjallað um þennan sama rétt barna. Sá samningur var lögfestur á Íslandi árið 2013. „Þrátt fyrir þessi ákvæði virðist réttur barna stundum fyrir borð borinn,“ segir hún.

Samkvæmt persónuverndarlögum eru viðkvæmar persónuupplýsingar til dæmis upplýsingar um heilsuhagi. Eydís bendir á að foreldrar, og aðrir, verði að hafa í huga að það sem er sett á netið er jafnan ekki hægt að taka til baka og getur því fylgt barninu til frambúðar. „Að mínu mati ættu allir notendur samfélagsmiðla að hafa gullnu regluna í huga: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Jafnframt eru einstaklingar jafn ólíkir og þeir eru margir. Staðreyndin er einfaldlega sú að ýmsar upplýsingar eiga ekki heima á netinu og það getur komið í ljós seinna að barnið kæri sig alls ekki um að þessar myndir eða upplýsingar séu á samfélagsmiðlum.“

Til að sporna við þessu ættu foreldrar að ganga eftir samþykki barna sinna, í samræmi við aldur þeirra og þroska, áður en birtar eru myndir eða upplýsingar um þau á samfélagsmiðlum. „Ef barn er hins vegar ófært um að tjá sig, svo sem vegna aldurs, þá er það undir foreldrunum komið að vega og meta hvort birtingin sé barninu til góðs. Fæstir fullorðnir einstaklingar vilja að birtar séu niðrandi eða óviðeigandi myndir af þeim, t.d. þar sem þeir eru naktir, klæðalitlir, vansælir eða í öðrum erfiðum aðstæðum. Hvers vegna ættu börn að vera svo frábrugðin?“ spyr Eydís.

Tvennt kom Eydísi á óvart þegar hún skrifaði umrædda ritgerð. Í fyrsta lagi að engin lög hafi verið sett hér á landi um notkun samfélagsmiðla þrátt fyrir mikla útbreiðslu og að einelti á netinu sé orðið algengt. Í öðru lagi sú erfiða staða sem börn eru í telji þau foreldra/foreldri hafa brotið gegn réttindum sínum. Hún telur brýnt að setja lög sem gæta réttinda barna á þessu sviði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert