„Óeðlilega langur biðtími“

Lilja Líf handleggsbrotnaði illa á mánudag en þarf að bíða …
Lilja Líf handleggsbrotnaði illa á mánudag en þarf að bíða fram á föstudag til að komast í aðgerð. ljósmynd/Ari Elíasson

Framkvæmdir á Landspítalanum í Fossvogi eru meðal þess sem valda því að Lilja Líf Aradóttir, níu ára gömul langveik stúlka, þarf að bíða í fjóra daga eftir því að komast í aðgerð á hendinni eftir að hafa handleggsbrotnað illa. Eins og mbl.is sagði frá fyrr í dag brotnaði Lilja á mánudagskvöld, en fékk ekki tíma í aðgerð fyrr en á föstudagsmorgun. Foreldrar hennar eru afar ósáttir við þennan langa biðtíma.

Frétt mbl.is: Áfall að barnið þurfi að bíða svo lengi

Þekktu ekki sögu barnsins

Yngvi Ólafsson, yfirlæknir bæklunarskurðlækninga á Landspítalanum, segir að biðtíminn sem Lilja Líf lendir í sé óeðlilega langur og skýrist af því að á sama tíma og deildin sé síður í stakk búin til að taka við sjúklingum vegna breytinga komi allt í einu kúfur. „Við getum ekki talað um þetta sem almennan hlut. Börn hafa forgang og lasin börn meiri forgang,“ segir Yngvi og bætir við að að einhverju leyti megi líka kenna upplýsingaskorti um þessa töf.  „En við vissum ekki sögu barnsins að öllu leyti.“

Eins og fram kom í fyrri frétt mbl.is er Lilja Líf langveik og með Downs-heilkenni, sem faðir hennar segir gera biðina enn erfiðari. Hún geti ekki tjáð sig eins og önnur 9 ára gömul börn og því ekki sagt foreldrum sínum hversu mikill verkurinn er. 

„Það er verið að lengja bata- og sárs­auka­ferli barns­ins og það erum við mjög ósátt við,“ sagði Ari Elíasson í samtali við mbl.is fyrr í dag. „Við erum ýmsu vön og höf­um farið með hana í gegn­um ým­is­legt svo þetta er ekki áfall sem slíkt held­ur er áfallið fyrst og fremst tím­inn. Að þurfa að vera vitni að því að barnið sitt þurfi að bíða í þetta lang­an tíma áður en brugðist er við.“

Ari segist strax hafa séð ummerki um beinbrot.
Ari segist strax hafa séð ummerki um beinbrot. ljósmynd/Ari Elíasson

Framkvæmdir valda töfum

Framkvæmdir eru í gangi á Landspítalanum í Fossvogi sem orsaka m.a. tafir í aðgerðir, verið er að setja á fót nýja skurðstofu og breyta vöknun og fleiri deildum. Yngvi segir að framkvæmdirnar hafi átt að vera búnar núna eftir sumarfrí en hafi dregist á langinn, vonir standa til að allt verði komið í samt horf í lok komandi viku.

„Vegna þessa erum við í því núna að hætta við aðgerðir og neyðumst til að dreifa aðgerðum sem koma inn yfir nokkra daga,“ segir Yngvi. „Hún hefði átt að fara í aðgerð í dag en fer ekki fyrr en á föstudaginn. Þetta er óheppilegt og óeðlilega langur biðtími út af ytri aðstæðum fyrst og fremst.“

Yngvi segir að það sé alvanalegt að brot á börnum bíði í einn til tvo daga. Bið Lilju Lífar í aðgerð mun ekki hafa áhrif á gróanda brotsins.

Töluvert álag í allt sumar

Töluvert álag er búið að vera á bæklunarskurðdeildinni í allt sumar að sögn Yngva. „Helgin var annasöm en læknar sem voru á vakt hér á mánudaginn segja að þá hafi verið eins og sprengju hafi verið kastað inn á spítalann.  Á þriðjudagsmorgun bíða sjö til átta aðgerðir sem komu inn seint á mánudagskvöldið og um nóttina. Við höfum ekki aðstæður til að taka við slíku nema að gera sérstakar ráðstafanir.“

Spurður hvort aukinn ferðamannafjöldi hafi eitthvað með álagið að gera segir Yngvi það ekki vera einvörðungu, álagið hafi verið að aukast smátt og smátt og hafi verið töluvert í allt sumar. „Vissulega liggja núna á deildunum okkar einn til tveir erlendir ferðamenn að jafnaði en voru fyrir nokkrum árum bara einn og einn á stangli yfir sumarið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert