Hraðakstur tíður við grunnskólana

Margir ökumenn aka of hratt í nágrenni við skóla borgarinnar.
Margir ökumenn aka of hratt í nágrenni við skóla borgarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið við hraðamælingar við grunnskóla á svæðinu í vikunni og segir ástandið ekki gott. Hátt í 200 ökumenn hafa verið staðnir að hraðakstri og eiga sekt yfir höfði sér.

Frétt mbl.is: Helmingur ökumanna reyndist brotlegur

Í dag var lögregla við mælingar á Neshaga í nágrenni Melaskóla en þar ók rúmlega fimmtungur ökumanna of hratt. Ástandið var enn verra í Rofabæ við Árbæjarskóla í morgun, þar sem tæplega þriðjungur ökumanna ók yfir leyfilegum hámarkshraða.

Sama brotahlutfall mældist í nágrenni Ölduselsskóla í fyrradag og í gær ók hátt í fimmtungur ökumanna of hratt framhjá Klébergsskóla á Kjalarnesi.

Þá ber að nefna að helmingur ökumanna ók of hratt þegar lögregla var við hraðamælingar í námunda við Hólabrekkuskóla og Fellaskóla á mánudag.

„Ekki er ástæða til að ætla að ástandið sé eitthvað skárra við aðra grunnskóla í umdæminu, en lögreglu hafa borist kvartanir vegna þessa, m.a. frá áhyggjufullum foreldrum í Grafarholti og þykir okkur ástæða til að nefna það sérstaklega í þeirri von að ökumenn þar taki þessa ábendingu til sín,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Hún áminnir ökumenn að aka varlega, ekki síst í námunda við skóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert