Helmingur ökumanna reyndist brotlegur

Umferðareftirlit. Myndin er úr safni.
Umferðareftirlit. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Helmingur ökumanna sem óku eftir Austurbergi í suðurátt í dag ók of hratt eða yfir afskiptahraða. Lögregla segir tölurnar sláandi. Meðalhraði hinna brotlegu var 43 km/klst. en hámarkshraði í götunni er 30 km/klst.

Vöktun lögreglu í Austurbergi í dag er liður í umferðareftirliti við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Alls fóru 114 ökumenn um Austurbergið í suðurátt, á móts við Hólabrekkuskóla, á meðan eftirliti lögreglu stóð. 57 reyndust brotlegir. Sá sem ók hraðast mældist á 57 km/klst.

Það vill svo ótrúlega til að sama átti við í Norðurfelli þar sem fylgst var með ökutækjum sem ekið var í vesturátt, við Gyðufell. Þar gerðust 55 brotlegir.

„Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 111 ökutæki þessa akstursleið og því ók helmingur ökumanna, eða 50%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 45 km/klst. en þarna er 30 km hámarkshraði. Sjö óku á 50 km hraða eða meira, en sá sem hraðast ók mældist á 59,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert