Fara yfir lagaákvæði vegna flokksþings

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær flokksþing Framsóknarflokksins verður haldið.

„Við erum að fara yfir þessi lagaákvæði. Hefðin hefur verið sú að frumkvæðið að boðun flokksþings hefur komið frá miðstjórn en nú hafa kjördæmisráðin lagt til að það verði haldið fyrir kosningar og við þurfum að fara yfir það núna,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður landsstjórnar Framsóknarflokksins.

Kjördæmisráð flokksins í Suðvesturkjördæmi samþykkti í gærkvöldi tillögu um að flokkþing yrði haldið í haust, áður en gengið verður til þingkosninga 29. október. Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins hefur jafnframt verið boðaður á Akureyri 10. september.

Frétt mbl.is: Boðað til flokksþings fyrir kosningar

Eygló segir að fundurinn í gærkvöldi hafi verið mjög fínn. Meðal annars hafi ákvörðun um uppstillingu verið tekin.

Ekki tekið ákvörðun um formannsframboð

Hún tilkynnti framboð sitt í Suðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar í haust á fundinum í gær. Aðspurð hvort hún ætli að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins á flokksþinginu sagði Eygló: „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um framboð til forystu flokksins. Nú er áherslan að mæta óskum flokksmanna um flokksþing svo við getum undirbúið okkur sem best fyrir kosningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert