Reykjavík greiðir 2 milljónir í skaðabætur

Koma átti upp heimagistingu fyrir ferðamenn í húsnæðinu.
Koma átti upp heimagistingu fyrir ferðamenn í húsnæðinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær að greiða eigendum Hallveigarstígs 2 um tvær milljónir í skaðabætur vegna yfirsjónar byggingafulltrúa við umsögn um rekstrarleyfi fyrir heimagistingu. 

RÚV greinir frá því að borgarlögmaður hafi á fundi ráðsins í gær greint frá kröfu húseigendanna sem kröfðu borgina um greiðslu skaðabóta upp á tæplega milljón vegna leyfa og framkvæmda í íbúðinni, eina og hálfa milljón vegna tapaðra leigutekna og tvær milljónir vegna framkvæmda og húsbúnaðarkaupa. 

Húseigendur ætluðu að koma upp íbúðagistingu fyrir ferðamenn í íbúð í húsinu og höfðu sótt um rekstrarleyfi fyrir heimagistingu.

Taldi borgarlögmaður að tjón hefði hlotist vegna yfirsjónar embættis byggingafulltrúa þar sem jákvætt hafi verið tekið í fyrirspurn um hvort leyft yrði að koma upp íbúðagistingu fyrir ferðamenn. Seinna hafi orðið ljóst að slík gisting væri óheimil á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert