„Til í flokksþing hvenær sem er“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist „svo sannarlega til í flokksþing hvenær sem er“. Segir hann að miðstjórn flokksins muni taka ákvörðun um dagsetningu þess á næsta fundi sínum og að ef fyrir liggi vilji um að halda flokksþing fyrir kosningar leggi hann til að það verði gert sem fyrst. Þá segist hann munu tryggja að fyrir miðstjórnarfundinn verði búið að vinna undirbúningsvinnu svo hægt verði að halda flokksþing á hverjum þeim degi sem miðstjórn velur. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Sigmundar.

Í færslunni víkur Sigmundur að því að „sumir virðast hafa fengið stórkostlegan áhuga á fundadagskrá Framsóknarflokksins“. Vísar hann meðal annars til þess að í gærkvöldi hafi RÚV verið með beina útsendingu í kvöldfréttum og 10-fréttum frá aukakjördæmisþingi framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi. Lætur hann með færslunni fylgja skjáskot af 15 fréttum sem hafa verið skrifaðar á vef RÚV undanfarnar vikur og mánuði.

Segir Sigmundur að á daginn hafi komið að þessi athygli sem flokkurinn hafi fengið snúist „fyrst og fremst (eða eingöngu)“ um það hvort flokkurinn muni halda flokksþing. Segir hann að þrátt fyrir málefnastöðu flokksins og árangurs síðustu ár læðist að honum sá grunur að „sérstakir áhugamenn um flokksþing utan flokksins séu áhugasamari um eitthvað annað“.

Í gær hittist kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og var þar kosið um að halda skyldi flokksþing fyrir þingkosningar á komandi hausti. Var þetta þriðja kjördæmisþing flokksins sem ákvað það og þarf því að halda flokksþing samkvæmt lögum flokksins. Hafði tillagan verið felld í Norðausturkjördæmi, en það er kjördæmi Sigmundar.

Í færslunni sinni segir Sigmundur að best sé fyrir formann að halda í kosningabaráttu með nýendurnýjað umboð, en það sé hins vegar álitamál hvort það henti flokknum að verja kröftum og fjármagni í flokksþing rétt fyrir kosningar, „sérstaklega ef grunur reynist réttur um það að áhugafólk um flokksþing utan flokks hafi takmarkaðan áhuga á árangri og málefnavinnu flokksins“.

Að lokum segir Sigmundur að hann sé til í flokksþing hvenær sem er: „Ég er svo sannarlega til í flokksþing hvenær sem er. Fyrir liggur að miðstjórn Framsóknarflokksins mun taka ákvörðun um dagsetningu þess á næsta fundi sínum. Ef fyrir liggur vilji um halda flokksþing fyrir kosningar legg ég til að það gerist sem fyrst. Þess vegna mun ég tryggja að fyrir miðstjórnarfundinn verði búið að vinna undirbúningsvinnu þ.a. hægt sé að halda flokksþing með glæsibrag á hverjum þeim degi sem miðstjórn velur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert