Lagðar til róttækar breytingar

Jón Gunnarsson.
Jón Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lagðar eru til róttækar breytingar á búvörulögum samkvæmt áliti meirihluta atvinnuveganefndar. Þetta segir Jóns Gunnarsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is, en málið var afgreitt úr henni í morgun. Meðal annars er komið til móts við athugasemdir Samkeppniseftirlitsins og felld út ákvæði um fyrirkomulag verðmyndunar og ákvæði um endurskoðun árið 2019 styrkt í sessi.

„Breytingarnar snúa í fyrsta lagi að tímarammanum. Endurskoðunarákvæðið er gert mjög virkt og gengið þannig frá málum að fram að þeim tíma fari fram víðtæk endurskoðun með aðkomu allra hagsmunaaðila. Þar á meðal neytenda, iðnaðarins og verslunar og þjónustu,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

„Við reiknum þá með allsherjaratkvæðagreiðslu að henni lokinni. Þá bæði á meðal bænda og í þinginu eftir því sem við á. Síðan fellum við út breytingar sem fyrirhugaðar voru á verðmyndunarkerfi landbúnaðarafurða. Þetta var mjög gagnrýnt af Samkeppniseftirlitinu og við tókum tillit til þeirra athugasemda og settum jafnframt inn breytingar sem tryggja betur rétt minni framleiðenda. Þar fórum við að tillögum eftirlitsins varpandi orðalag.“

Vill sjá meiri markaðshugsun í landbúnaðargeiranum

Enn fremur hafi verið lagðar fram breytingar um helgina sem tengist tollasamningi Íslands við Evrópusambandið. „Þar er meðal annars opnað fyrir innflutning á svokölluðum sérmerktum ostum. Fer úr 20 tonnum í 230 tonn. Það átti að trappast inn á næstu fjórum árum en mun í staðinn allt koma inn að fullu 1. janúar 2017.“

Gert sé ráð fyrir að ostarnir verði fluttir inn án allrar tollverndar. Fyrirkomulagi á úthlutun útflutningskvóta verði breytt þannig að um hlutkestisfyrirkomulag verði að ræða þar sem tryggt sé að enginn einn aðili geti fengið meira en 15% kvótans. Markmiðið sé að tryggja aðkomu minni aðila og ákveðna dreifingu.

„Ég tel síðan að þetta fyrirkomulag sé gengið sér algerlega til húðar. Það er mín persónulega skoðun. Ég geri mér vonir um það að sú mikla endurskoðun á þessu muni leiða bara til nýrrar stefnu. Það þarf að leiða miklu meiri markaðshugsun að mínu mati inn í alla ferla í þessum landbúnaðargeira okkar og ég geri mér vonir um að þessi vinna okkar með öllum þessum samráðsaðilum leiði til einhverrar slíkrar niðurstöðu. Að við sjáum hér eitthvert kerfi sem mun gagnast betur bæði bændum og neytendum og sem geti orðið víðtækari sátt um heldur en er í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert