Finna aðeins veikan púls borgarinnar

Grunnskólakennarar taka undir áhyggjur skólastjórnenda vegna fjárskorts í skólamálum í …
Grunnskólakennarar taka undir áhyggjur skólastjórnenda vegna fjárskorts í skólamálum í borginni. Eggert Jóhannesson

Grunnskólakennarar í Reykjavík taka undir áhyggjur skólastjórnenda af þungri stöðu grunnskólanna í Reykjavík. Segir í ályktun félagsins sem samþykkt var í dag að skólar í Reykjavík standist aðeins samanburð vegna þess að kennarar hafi þurft að taka á sig auknar byrðar vegna niðurskurðar undanfarið.

„Fyrir löngu síðan er komið að þolmörkum og ekki verður lengur hægt að halda uppi sama þjónustustigi án þess að bæta verulega í. Nemendahópar hafa verið að stækka, sérkennsla hefur verið skert verulega, dregið hefur úr stuðningi við nýbúa og lögboðin kennsla jafnvel skert þar sem ekki er hægt að greiða fyrir afleysingar. Þá hefur búnaður skólanna lítið verið endurnýjaður, þrátt fyrir mikla notkun, og viðhald húsnæðis í lágmarki frá því fyrir kreppu,“ segir í ályktuninni.

Bent er á að á sama tíma og kennurum sé gert að vinna eftir aðalnámskrá grunnskóla sem boði skapandi skólastarf og fjölbreytt námsmat hafi skólarnir ekkert bolmagn til að mæta þessum kröfum.

Vísað er í viðtal við Dag B. Eggertsson borgarstjóra hjá RÚV þar sem hann sagði hjarta þeirra sem stýra borginni slá með skólunum. „Eins og staðan er í dag finna kennarar, og aðrir starfsmenn skólanna, aðeins veikan púls,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert