Sérfræðingar á leið að Múlakvísl

Aukin rafleiðni og gasmengun mældist í Múlakvísl í gær.
Aukin rafleiðni og gasmengun mældist í Múlakvísl í gær. mbl.is/Jónas Erlendsson

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands eru nú á leið að Múlakvísl eftir að aukin rafleiðni mældist í ánni í gær og gasmælingar á svæðinu sýndu há gildi á brenni­steins­díoxíði og brenni­steinsvetni.  Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá náttúruvá Veðurstofu Íslands, segir rafleiðni í Múlakvísl enn vera mjög háa, hún hafi þó lækkað örlítið frá mælingum gærdagsins.

Upplýsingar um gasmengunina liggja hins vegar ekki fyrir fyrr en að lokinni frekari rannsókn, en í gær var fólki bent á að staldra ekki lengi við í ná­grenni árinnar vegna gasmeng­un­ar. „Það hefur verið vindur og úrkoma, þannig að það er líklegt að dregið hafi úr gasmenguninni, en það verður þó ekki staðfest nema með mælingum,“ segir Gunnar.

Hann segir að rafleiðnin sé líklega til komin vegna jarðhitavatns sem lekið hefur úr kötlum í sumar, þótt ekki sé mikið vatn í Múlakvísl. „Rafleiðnin eykst alltaf á sumrin og hún er búin að vera há af og til í allt sumar.“

Skjálftahrinan í Kötlu að fjara út

Rólegt hefur verið á skjálftavaktinni í dag og gær, en vel á fimmta tug jarðskjálfta mæld­ust við Kötlu í Mýr­dals­jökli í fyrrinótt. Gunnar segir einn skjálfta hafa mælst upp á  3,3 norðarlega í öskjunni um miðjan dag í gær, en síðan hafi eingöngu orðið fáir og smáir skjálftar sem hafi verið um og í kringum einn að stærð.

„Þannig að það virðist vera sem þetta hafi bara fjarað út og það er enginn órói eða annað slíkt á svæðinu,“ segir hann og kveður mjög litlar líkur á að Katla sé að fara að gjósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert