„Stórkostlegt tjón fyrir þetta svæði“

Unnið við gerð stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar. Málefni Þeistareykjar- og Kröflulínu voru …
Unnið við gerð stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar. Málefni Þeistareykjar- og Kröflulínu voru til umræðu á fundi atvinnuveganefndar nú í morgun. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Málefni Þeistareykja- og Kröflulínu voru til umræðu á fundi atvinnuveganefndar nú í morgun. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segir blasa við að staðan sé mjög alvarleg eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála stöðvaði framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 nú fyrr í mánuðinum.

Meðal gesta atvinnuveganefndar voru sveitarstjórnarmenn að norðan, ásamt fulltrúum Landsnets, Landsvirkjunar og Landverndar sem drógu upp mynd af ástandi mála.

„Menn eru að vinna þarna undir mjög þröngum tímaramma til að geta staðið við undirritaða samninga og þessi töf sem verður núna tekur af þeim mjög mikilvægan verktíma í haust,“ segir Jón. Áætlanir geri ráð fyrir að hægt sé að vinna á svæðinu fram í nóvember og jafnvel mögulega fram í desember ef vel viðri. Eftir það verði ekki hægt að hefjast handa á ný fyrr en í júní á næsta ári.

„Það er fyrirsjáanlegt að ef þetta gerist munu menn ekki geta staðið við gildandi samninga og það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér gagnvart samningsaðilum.“

Þingið í vanda gagnvart náttúruverndarlögum

Jón segir ekki hafa unnist tíma til þess í morgun að ræða hvort atvinnuveganefnd móti einhverjar tillögur um málið en bendir á að þeim þingmönnum sem átti sig á því hve alvarleg staðan sé hafi verið mikið niðri fyrir.

„Það má vera að þingið þurfi að koma að þessu en það hefur hins vegar ekkert verið rætt eða skoðað frekar. Með einhverjum hætti verða menn hins vegar að reyna að bregðast við þessu ef við ætlum ekki að horfa á þetta verða stórkostlegt tjón fyrir þetta svæði og fyrir okkur sem samfélag.“

Jón segir þingið vera í ákveðnum vanda er snýr að náttúruverndar- og rammaáætlanalögunum. „Þar hafa menn reynt að ná saman um þverpólitíska niðurstöðu en svo kemur í ljós að við framkvæmd laganna verða miklar og erfiðar deilur sem endurspegla alls ekki þann vilja þingmanna að ná sem víðtækastri sátt um þennan mikilvæga málaflokk.“

Funda um stöðvun framkvæmda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert