Algjört ævintýri að sjá þetta gerast

„Fyrir mig sem formann er það búið að vera algjört ævintýri að sjá þetta verða að veruleika,“segir Aileen Soffía Svensdóttir, formaður Átaks, um fyrstu Stoltgönguna sem verður gengin á laugardaginn. Þá mun fatlað fólk auk annarra ganga saman og sýna stolt, styrk og sýnileika í samfélaginu. 

mbl.is hitti Aileen og Ísak Óla Sævarsson í dag, en hann hannaði mynd sem er prentuð á boli sem framleiddir eru í tilefni göngunnar, sem eins og fyrr sagði er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og að því leyti söguleg. Bolirnir voru að koma úr prentun í dag og mbl.is var á staðnum. 

Gengið verður frá Austurvelli að Norræna húsinu og hefst gangan rétt fyrir tólf á hádegi. Í Norræna húsinu verða síðan fleiri viðburðir, en þar verða fatlaðir, og fleiri hópar sem hvattir eru til að taka þátt í göngunni, þátttakendur í Fundi fólksins.

Allir eru hvattir til að taka þátt og sýna samstöðu, en það er Átak - félag fólks með þroskahömlun, sem stendur að göngunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert