Umskipti í vændum

Það er búið að vera yndislegt veður að undanförnu og …
Það er búið að vera yndislegt veður að undanförnu og margir krakkar notið veðurblíðunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Veðurspáin er flott um helgina og verður víða sól, einkum fyrir norðan, í dag. Hitinn fer væntanlega í 15 til 16 stig í dag en annað kvöld er von á umskiptum þegar hvessa fer af austri. 

„Það lítur áfram út fyrir fallegt síðsumarsveður á öllu landinu í dag og á morgun. Sólskin víða og hitatölur gætu náð 15 til 16 gráðum víða um land. Líklega sést meira til sólar norðan til en sunnanlands í dag en á morgun er útlit fyrir gróðraskúr víðsvegar um landið.

Annað kvöld skiptir um veðurlag þegar fer að hvessa heldur af austri en þá ganga skil frá lægð suður í hafi yfir landið. Á mánudag má því búast við hvassviðri eða jafnvel stormi um tíma syðst á landinu. Með skilunum berst einnig inn á land talsverð úrkoma, og verður víða nokkuð blautt. Næsta vinnuvika er svo bæði nokkuð úrkomusöm og einnig er útlit fyrir heldur hærri meðal vindhraða en við höfum átt að venjast síðustu daga og vikur, enda við því að búast þegar hallar að hausti, segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands í morgunsárið.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Hæg breytileg átt, en austlægari norðan til síðdegis. Víða bjartviðri norðan jökla annars skýjað með köflum en líkur á stöku skúrum bæði norðan til og suðvestanlands síðdegis. Suðaustan 3-8 m/s og víða skúrir á morgun en lengst af þurrt um landið norðaustanvert. Hvessir sunnan- og suðaustanlands annað kvöld og fer að rigna með suður- og austurströndinni Hiti 7 til 15 stig að deginum, hlýjast SV-til.

Á sunnudag:
Austlæg átt, 3-8 m/s, en 8-13 syðst seinnipartinn. Víða bjart með köflum, en skúrir S- og V-lands og þykknar upp með rigningu við austurströndina um kvöldið. Hiti 8 til 14 stig.

Á mánudag:
Gengur í austan og síðar suðaustan hvassviðri eða jafnvel storm um tíma syðst. Talsverð rigning, einkum suðaustanlands en hægari og úrkomuminna á Norðurlandi. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:
Allhvöss suðvestan- og vestanátt, einkum S- og SA-lands með rigningu eða skúrum. Þurrt að kalla A-til síðdegis og lægir víða um kvöldið. Áfram fremur milt.

Á miðvikudag:
Gengur í sunnan 8-13 m/s og rigningu sunnan - og vestanlands en yfirleitt þurrt norðaustan- og austanlands. Hiti 7 til 12 stig.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðaustanátt með vætu í flestum landshlutum og milt veður.

Á föstudag:
Líkur á vaxandi suðaustanátt og úrkomu, en áfram mildu veðri.

Veður á mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert