„Hundfúlt“ að vera lækkuð niður

Margrét Tryggvadóttir.
Margrét Tryggvadóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Margrét Tryggvadóttir, sem hlaut kosningu í 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, færist niður um tvö sæti á lista vegna reglna um kynja- og aldurssamsetningu á lista flokksins. Margrét náði kjöri í þriðja sæti með 396 atkvæði en færist niður í það fimmta.

Lækkuð niður fyrir að vera „gömul kerling“

„Mér var ofsalega vel tekið og ég er bara mjög þakklát fyrir það,“ segir Margrét í samtali við mbl.is en kveðst þó vissulega svekkt yfir að hafa verið færð niður um sæti. „Mér finnst það náttúrlega alveg hundfúlt að vera lækkuð niður út af því að vera gömul kerling,“ útskýrir Margrét.

Kveðst hún þó heilt á litið vera himinlifandi með þá kosningu sem hún hlaut, en ef rýnt er í tölurnar kemur í ljós að Margrét fékk næstflest atkvæði samanlagt í fjögur efstu sætin og jafnframt fleiri atkvæði en Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sem vermir fyrsta sæti listans.

Tvöfaldur kvóti gangi ekki upp

„Ég vissi svo sem alveg að akkúrat þetta gæti gerst en ég held að það hafi nú kannski bara sýnt sig að það gengur ekki upp að vera með svona tvöfaldan kvóta,“ útskýrir Margrét. „Ef maður bara lítur á hvernig raðaðist í þessi sæti höfðu held ég kjósendur bara rétt fyrir sér,“ segir Margrét, en hún telur að í raun séu kynja- og aldurskvótarnir óþarfir í ljósi niðurstaðna í prófkjörinu sem og í prófkjörum undanfarinna ára.

„Þeir sem ég hef heyrt í hafa undantekningalaust verið á þeirri skoðun að það gangi ekki að vera með tvöfaldan kvóta. Persónulega held ég að Samfylkingin þurfi hvorki kynjakvóta né aldurskvóta miðað við hvernig var kosið en hins vegar held ég að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi á því að halda,“ segir Margrét, sem vísar þar til niðurstaðna í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suður- og Suðvesturkjördæmum þar sem karlar skipa efstu 3-4 sæti á lista.

Frétt mbl.is: Karlar í þremur efstu sætunum

Segir hún að hjá Samfylkingunni hafi konur yfirleitt fengið góða kosningu þótt fleiri karlmenn leiði lista, en karlar leiða lista Samfylkingarinnar eftir þrjú prófkjör helgarinnar. „Konum gekk svona fyrir utan það, betur en körlum en eru svo lækkaðar niður,“ útskýrir Margrét.

Frétt mbl.is: Össur sigraði í Reykjavík

„Ef við horfum á hverjir eru að kjósa þessa flokka, þá eru konur að kjósa Samfylkinguna og karlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Kannski er bara allt í lagi að listarnir endurspegli það.“

Spurð hvort hún telji það ólýðræðislegt að breyta lista, sem félagsmenn Samfylkingarinnar hafa kosið, með þessum hætti vill hún ekki segja að svo sé. „Ég vil ekki segja það, vegna þess að þetta náttúrlega lá fyrir fyrir fram, reglurnar voru þarna þannig að við sem tókum þátt í þessu vissum að þetta gæti gerst.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert