Segir 5. sætið vonbrigði

Valgerður Bjarnadóttir sóttist eftir 1. sæti en hafnaði í því …
Valgerður Bjarnadóttir sóttist eftir 1. sæti en hafnaði í því 5. í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Ég hef nú sagt það og ekkert farið leynt með það að það voru mér vonbrigði,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Valgerður sóttist eftir fyrsta sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fór um helgina en hafnaði í því fimmta. „Auðvitað vonaði ég að ég yrði ofar en í fimmta sæti.“ 

Valgerður skipaði annað sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu þingkosningum en ekki liggur ljóst fyrir að svo stöddu í hvoru kjördæminu Valgerður mun taka sæti. „Ef ég á að komast á þing er mjög á brattann að sækja,“ segir hún.

Kynjakvótinn bitni á konum

„Ég held að það sé orðið þannig hjá okkur að þessi kynjakvóti er farinn að bitna frekar á konum. Það þarf að færa þær til þannig að ég held að hann hafi skilað þeim árangri sem ætlað var,“ segir Valgerður, en hlutskipti kynjanna í prófkjörum stjórnmálaflokkanna að undanförnu hefur verið talsvert til umræðu.

„Ég hef svo sem verið á því í einhvern tíma og velt því fyrir mér hvort við höfum ekki náð þeim tilgangi sem kynjakvótanum var ætlað og þess vegna getum við bara hætt þeim,“ segir Valgerður.

Aftur á móti telur hún að ef til vill veiti ekki af slíkum kvóta hjá öðrum flokkum en kveðst þó að öðru leyti ekki ætla að tjá sig um aðra flokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert