Gefur ekki mikið fyrir skýrsluna

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon segir það þvætting að stjórnvöld hafi látið spila með sig af ótta við málsókn vegna neyðarlaga við uppgjör föllnu bankana. Orð Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, um að stjórnvöld hefðu látið spila með segir Steingrímur vera ögurmæli enda hafi neyðarlögin verið grunnurinn að vinnu stjórnvalda í tengslum við uppgjör bankanna.

 „Allir gerðu sér grein fyrir því að það myndi reyna á neyðarlögin fyrir dómstólum og EFTA,“ segir Steingrímur. „Það voru allir bjartsýnir á að neyðarlögin myndu halda og öllum málflutningi var hagað þannig.“

Frétt mbl.is: Langt seilst til að friða kröfuhafa

Þá bendir Steingrímur á að ef ekki hefði náðst samkomulag um uppgjör milli nýju og gömlu bankana hefði komið til málaferla sem hefði reynst Íslandi þungbært. „Það var mikilvægt að fá niðurstöðu því þjóðarhagsmunir stóðu og féllu með því,“ segir Steingrímur.

Þegar mbl.is náði tali af Steingrími hafði hann ekki kynnt sér efni skýrslunnar ítarlega en sagði að í fljótu bragði virtist sem ekkert nýtt komi fram í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar. Hann gagnrýnir þó „einkaframtak“ þeirra Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og segir augljóst að það sé maðurinn sem leiðangurinn sé á eftir. Hins vegar hafi mikið af færu fólki komið að þessari vinnu á sínum tíma og honum þyki það miður að það fólk þurfi að sitja undir linnulausum tilefnislausum árásum.

Áður búið að hrekja ósannindi sem koma fram í skýrslunni

Spurður út í þá gagnrýni sem fram kom í skýrslunni um að íslenska ríkið hefði tekið á sig verulega áhættu við endurreisn bankakerfisins segist Steingrímur ekki skilja hvar skýrsluhöfundar séu staddir í heiminum. „Stóðu menn í röðum og buðust til að taka áhættu,“ spyr Steingrímur og bendir á að Brynjar Níelsson hafi verið öllu sanngjarnari þegar hann tók málið fyrir hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hann hafi komist að algerlega gagnstæðri niðurstöðu en meirihluti fjárlaganefndar.

„Það má endalaust velta fyrir sér hvort hægt hefði verið að gera betur með því að gera eitthvað öðru vísi. En þetta voru samningaviðræður, hinu megin borðsins var herskari lögfræðinga en okkar samningamenn stóðu sig með afbrigðum vel,“ segir Steingrímur. „Það var farin samningaleið, samningur er ekki þannig að annar fái allt sem hann vill. Þegar uppi er staðið held ég að þetta hafi reynst farsælt og ekki spillir fyrir að ríkið kom út úr aðgerðinni í bullandi plús, vel á annað hundrað milljarða.“

Steingrímur segir að búið sé að hrekja öll þau ósannindi sem fram komi í skýrslunni, m.a. af Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu. Hann segir það hafa verið gríðarlega veigamikla og afdrifaríka aðgerð að koma nýju fjármálakerfi af stað eftir efnahagshrunið. „Án fullfjármagnaðra banka hefði engin endurreisn geta hafist,“ segir Steingrímur og bætir við að í seinni tíð hafi jafnframt komið í ljós að ríkissjóður hafi endurheimt allt það sem lagt var í endurreisn bankakerfisins á sínum tíma og gott betur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert